Við fengum stelpurnar í Fortuna Invest til að hjálpa okkur með fjármálamola dagsins en Fortuna Invest er vettvangur sem veitir aðgengilega fræðslu um fjárfestingar. Þær útskýra hér fyrir okkur hvað sjóður sé.
Sjóður er sameiginleg fjárfesting margra aðila. Svonefndur sjóðstjóri stýrir sjóðnum og tekur ákvörðun um það í hverju er fjárfest í samræmi við reglur sem um starfsemi hans gilda. Sjóðir eru jafn mismunandi og þeir eru margir. Sumir fjárfesta einungis í hlutabréfum, aðrir í skuldabréfum o.s.frv. Þannig bera þeir líka mismikla áhættu.
Ímyndaðu þér að þú hafir valið þér hlutabréfasjóð til þess að kaupa í. Annað fólk gerir slíkt hið sama svo upphæðirnar ykkar leggjast saman í sjóðnum. Þar tekur sjóðstjórinn við og gerir sitt besta til að ávaxta peninginn með því að kaupa og selja verðbréf fyrir upphæðina sem lögð var inn í sjóðinn.
Það er algengur misskilningur að þú þurfir að eiga mikla fjármuni til að fjárfesta í sjóðum. Algengt er að lágmarksupphæð sé 10.000 kr. fyrir stök kaup og 5.000 kr. fyrir áskrift að sjóði.