Menntakerfi landsins kennir okkur ýmislegt, bæði gagnlega hluti og annað sem nýtist okkur ekki jafn vel. Fjármálalæsi er einn þeirra þátta sem fær ekki nægilegt pláss í námskránni að mínu mati, sé tekið mið af mikilvægi þess.
Undanfarið hefur fátt annað verið í umræðunni en verðbólga. En hvað er verðbólga? Við skulum reyna að skilja hugtakið betur með aðstoð heimasíðu Seðlabankans.
Stýrivextir
Í síðasta fjármálamola var fjallað um hlutverk Seðlabanka Íslands. En eitt helsta hlutverk bankans er að nota stýrivexti til að stuðla að efnahagslegum stöðugleika í landinu, inn í það fellur verðbólga.
Seðlabankinn ákveður hversu háir vextirnir eru en stýrivextir eru notaðir til að hafa áhrif á markaðsvexti. Það þýðir að vextirnir sem við þurfum að greiða bönkum og lánastofnunum eru háðir þeim vöxtum sem Seðlabankinn ákveður.
Kerfið virkar nefnilega þannig að bankar og lánastofnanir fá pening að láni úr Seðlabankanum á ákveðnum vöxtum. Við tökum svo lán hjá okkar banka eða lánastofnun með ákveðnum vöxtum. En þeir vextir eru alltaf hærri en stýrivextir Seðlabankans svo bankarnir eða lánastofnanir okkar græði á því að lána peninginn sinn.
Verðbólga
Verðhækkun á vörum og þjónustu yfir ákveðinn tíma nefnist verðbólga. En hugtakið verðbólga er skilgreint sem viðvarandi hækkun almenns verðlags yfir tíma, oftast 12 mánuði. Til þess að verðhækkanir valdi verðbólgu þá þurfa hækkanirnar að vera viðvarandi yfir nokkuð langt tímabil en ekki tilfallandi.
Áhrifin sem verðbólga hefur eru að kaupmáttur peninga og verðgildi minnka en það þýðir að við getum keypt minna magn af vörum og þjónustu fyrir hverja krónu.
Þeir þættir sem geta stuðlað að verðbólgu eru m.a. hækkun verðs hjá fyrirtækjum, til að mæta hækkun framleiðslukostnaða,r og aukin eftirspurn á markaði.
Verðhjöðnun er svo andstætt hugtak við verðbólgu.