Fjölmiðlaþjálfun FKA og RÚV fer fram fimmtudaginn 4. febrúar næstkomandi en í námskeiðið, sem er eingöngu opin konum, munu veljast 10 til 12 konur. Um er að ræða samstarfsverkefni FKA og RÚV með aðkomu Andrésar Jónssonar almannatengils og Þórhalls Gunnarssonar fjölmiðlamanns.

Allar konur eru gjaldgengar og er umsóknarfrestur til og með föstudags, þann 15. janúar 2021. Um er að ræða hagnýta fjölmiðlaþjálfun fyrir konur í húsakynnum RÚV í Efstaleiti þar sem þátttakendur fá leiðsögn reynds fjölmiðlafólks.

„FKA og RÚV halda áfram að auka fjölbreytni viðmælenda í íslenskum fjölmiðlum og bæta um leið aðgang fjölmiðlafólks að konum með sérþekkingu á ýmsum sviðum,“ segir Unnur Elva Arnardóttir stjórnarkona FKA.

Unnur Elva Arnardóttir
Unnur Elva Arnardóttir
© Aðsend mynd (AÐSEND)

  • Unnur Elva Arnardóttir sölu og viðskiptastjóri Skeljungs og stjórnarkona FKA.

Allar konur gjaldgengar

Andrea Róbertsdóttir
Andrea Róbertsdóttir
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Fjölmiðlaþjálfunin er nú haldin í annað skiptið en í það fyrra voru valdar konur úr níu sérsviðum, en Vísir sagði frá því fyrir hartnær ári að meðal þeirra sem voru valdar þá má nefna Silju Úlfarsdóttur frjálsíþróttakonu og Ástu Sigríðu Fjeldsted þáverandi formann Viðskiptaráðs sem nú stýrir Krónunni. Í ár eru hins vegar engar slíkar kröfur.

„Í fyrra var könnun lögð fyrir starfsfólk fréttamiða og spurt hvort erfiðara væri að finna konur sem viðmælendur á einhverjum tilteknum sérsviðum," segir Andrea Róbertsdóttir framkvæmdastjóri FKA (á mynd að ofan til vinstri). „Níu sérsvið voru oftast nefnd og við brugðumst við því í fyrra. Engar inntökukröfur eru í verkefnið að þessu sinni og allar konur gjaldgengar til að sækja um,“ bæti Andrea við.

„Það var í upphafi ársins 2019 sem undirritaður var samningur FKA og RÚV til þriggja ára um verkefni sem ætlað er að auka fjölbreytni viðmælenda í íslenskum fjölmiðlum. Þjálfunin er ekki bara fyrir félagskonur FKA heldur opið öllum konum til að gefa öllum konum tækifæri. Við viljum fjölbreytileikann,“ bætir Unnur Elva við.

Sérstök valnefnd í startholunum.

„Í kynningarbréf segir umsækjandi frá sjálfri sér og sinni reynslu. Einnig þarf að fylgja rökstuðningur fyrir því að umsækjandi verði valinn til þátttöku í verkefninu. Sérstök valnefnd fer yfir umsóknir og kemur til með að velja 10-12 umsækjendur á grundvelli rökstuðnings í umsókn,“ segir Andrea.

Í valnefnd árið 2021 eru þau Eva Laufey Hermannsdóttir, Gunnar Hansson, Hulda Bjarnadóttir og Sigmundur Ernir Rúnarsson sem sátu einnig í nefndinni síðast.

„Umsækjendur skuldbinda sig til að taka þátt í öllu verkefninu og að deila reynslu sinni með konum í Félagi kvenna í atvinnulífinu meðal annars á Sýnileikadegi FKA.“

Leiðsögn reynds fjölmiðlafólks

„Það er opið fyrir umsóknir út vikuna og ég hvet konur til að setja sig á dagskrá og skella inn umsókn því miði er möguleiki,“ segir Andrea glöð í bragði. „Konur sem vilja stórefla tengslanetið sitt, styrkja sig og hafa áhrif til eflingar íslensks atvinnulífs eru hvattar til að taka þátt í starfi FKA.

„Varðandi fjölmiðlaþjálfunina þá er það einstakt að fá leiðsögn reynds fjölmiðlafólks og tækifæri til að spreyta sig við raunverulegar aðstæður í útvarpi og sjónvarpi,“ segir Unnur Elva fulltrúi stjórnar í verkefninu.

Nánar um fjölmiðlaþjálfunina í húsakynnum RÚV í Efstaleiti Reykjavík fimmtudaginn 4. febrúar 2021 og umsókn hér .