Melsnes ehf., félag í eigu Sigmars Páls Jónssonar, lögmanns og eins eigenda Nordik lögfræðiþjónustu, hefur gengið frá sölu á 236 fermetra einbýlishúsi að Kaldakri 6 í Garðabæ. Söluverð eignarinnar nam 285 milljónum króna og nam fermetraverð því um 1,2 milljónum króna. Kaupendur eru Egill Arnar Birgisson og Elva Rut Erlingsdóttir, eigendur gólfefnaverslunarinnar Ebson.

Athygli vekur að félag Sigmars Páls festi kaup á húsinu fyrir einungis rúmu hálfu ári síðan fyrir 230 milljónir króna, eða sem nemur fermetraverði upp á tæplega eina milljón króna. Verð hússins hækkaði því um 55 milljónir á rúmu hálfu ári og ávöxtun félagsins af fjárfestingunni nemur því 24%. Félag Sigmars keypti húsið af Magnúsi H. Björnssyni og Sigrúnu Þórólfsdóttur í september á síðasta ári.

Húsið, sem var reist árið 2006, fór fyrst á sölu síðasta haust og seldist eins og fyrr segir fyrir 230 milljónir króna, sem var uppsett verð samkvæmt fasteignaauglýsingu. Samkvæmt kaupsamningi fékk Sigmar Páll húsið afhent í nóvember sl. en aðeins rúmlega tveimur mánuðum síðar var það svo auglýst til sölu á ný. Enginn verðmiði var settur á húsið heldur var óskað eftir tilboði.

Í fasteignaauglýsingu var húsinu lýst sem vel skipulögðu, vönduðu og flottu fimm herbergja einbýlishúsi á einni hæð, þar af sé 37 fermetra bílskúr. Svefnherbergi séu þrjú til fjögur og baðherbergi tvö. Húsið standi á skjólsælum stað með um 200 fermetra harðviðarverönd með steyptum skjólveggjum, heitum potti og um 110 fermetra útigeymslu. Hátt sé til lofts í allri eigninni. Í alrými sé 3,6 metra lofthæð, en annars staðar sé lofthæð 2,6 metrar. Rut Kára hafi nýlega komið að innanhússhönnun með að vali á lit og gardínum hússins.

Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.