Halla Tómasdóttir forseti keypti á dögunum rafbílinn Volvo EX30 frá bílaumboðinu Brimborg. Fjallað var ítarlega um bílinn í Bílablaði Viðskiptablaðsins sem kom út í mars.
Það sem er hins vegar óhætt að fullyrða er að bíllinn sjálfur er frábær valkostur og mjög þægilegur í akstri.
Volvo EX30 kemur í nokkrum útfærslum, með 51 eða 69 kWh mótor sem er með afturhjóla- eða aldrifi. Bíllinn sem reynsluekinn var er afturhjóladrifinn Ultra LR með uppgefna 475 drægni. Uppgefin hröðun á afturhjóladrifnum Ultra LR er 5,3 sek. í 100 km hraða en á aldrifsbílnum aðeins 3,6 sek.
Bíllinn er 4233 mm langur og 2032 mm breiður að meðtöldum speglum. EX30 er 1555 mm hár og er veghæðin 17,7 cm. Volvo EX30 Ultra kemur á 19” 8-Spoke Aero álfelgum sem gefa honum sportlegt útlit.
Volvo hefur ætíð verið frægt fyrir öryggi og er EX30 engin undantekning. Bíllinn er með skjá við stýrið og til þess að ökumaður stari ekki of mikið á skjáinn þá er hann undir stöðugu eftirliti myndavélar sem staðsett er fyrir ofan stýrið og greinir hún ef ökumaður dottar eða er ekki með augun á veginum, eða t.d. geispar, og gefur þá viðvörun um slíkt.
Stjórntakkar eru í stýri sem vinna með stjórnskjánum, m.a. við stillingu á hliðarspeglum auk þess sem þeir virka sem stjórntakkar fyrir útvarp þegar það er á. Stýrið er sporöskjulaga og eru helstu stjórntæki innan seilingar.
Vinstra megin eru stefnuljósin sem og rúðuþurrkur á einum og sama armi en hægra megin er gírskiptingin þar sem einnig er stjórnun fyrir hraðastilli. Rafdrifnar rúður eru að framan og aftan, en fyrir ökumann og farþega frammí er stillingin í miðjustokki, aðeins tveir takkar, og þarf ökumaður að skipta með snertitakka yfir í stillingu fyrir afturrúður til að stjórna þeim.
Sætin eru líka ný hönnun hjá Volvo, virkilega þægileg og flott. EX30 býður einnig upp á nýjung í hljóðkerfinu sem er frá Harman Kardon en frammí er ein hljóðstöng sem nær yfir allt mælaborðið með fimm innbyggðum hátölurum. Magnarinn er 1040 W og hátalarnir í allt níu.