Bílar eru stór hluti af bíómyndum nútímans sem og síðustu áratuga. Í sumum tilfellum eru bílarnir aðalstjörnurnar sem hefur sennilega ræktað bíladelluna hjá mörgum. Hér eru 10 eftirminnilegir og skemmtilegir bílar úr bíómyndum.
Italian Job
Italian Job er sígild spennumynd með grínívafi, þar sem aðalpersónurnar nota Mini Cooper sem hjálpartæki við bíræfið gullrán. Það eru í raun tvær myndir sem eru til og báðar gerast á Ítalíu. Sú fyrri kom út árið 1969, með Michael Caine í aðalhlutverki, og seinni, með Mark Wahlberg í aðalhlutverki, kom út árið 2003. Það skiptir ekki máli hvort maður sá upprunalegu myndina eða eftirgerðina, mann langaði í Mini Cooper. Í báðum myndum eru spennandi eltingaleikir þar sem bíllinn virðist komast allt, í gegnum þröngar götur og niður háar tröppur. Bíllinn varð aðalstjarnan í báðum myndum og hafði mikil menningarleg áhrif á næstu kynslóðir, þar sem mikil eftirspurn varð eftir Mini.

Fast and the Furious
Fast and the Furious myndirnar eru gríðarlega vinsælar í dag. Myndirnar eru þekktar fyrir svakalega bílaeltingarleiki, hasar og flotta bíla. Þessar myndir hafa haft stór áhrif á bílamenningu í heiminum. Í fyrstu myndinni fáum við að kynnast fjölskyldumanninum Dominic Toretto, sem er leikinn af Vin Diesel, og teymi hans. Hann sýnir okkur ógnvekjandi, svartan 1970 Dodge Charger með risa stórri vél og forþjöppu sem stendur upp úr húddinu. Dodge Charger var lengi vinsæll bíll áratugum áður, en Vin Diesel gerði bílinn flottan fyrir nýrri kynslóðir.

Batman Begins
Leðurblökubíllinn hefur alltaf verið sígildur og hefur komið út í mismunandi útgáfum. Sá leðurblökubíll sem hefur staðið mest upp úr er bíllinn í þríleiknum eftir Christopher Nolan og er kallaður Tumbler. Hann er eins og blanda af Lamborghini og Humvee. Með sportlega eiginleika og heldur sér ekki langt frá jörðinni en er eins og skriðdreki á hjólum. Christopher Nolan og Nathan Crowley hönnuðu bílinn saman og vildu gefa honum nútímalegt útlit, en færa sig frá eldra sportlega útlitinu úr fyrri myndum. Skemmtilegt er að segja frá því að bíllinn er til í alvöru og var keyrður í myndinni en ekki tölvugerður eins og oft er gert í bíómyndum í dag.

Smokey and the Bandit
Smokey and the Bandit er klassísk mynd sem fjallar um töffarann Bandit og félaga hans Snowman, þar sem þeir reyna að smygla bjór frá Texarkana til Atlanta. Aðalstjarnan í myndinni er hins vegar svartur og gylltur 1977 Pontiac Trans Am, sem margir urðu ástfangnir af eftir að myndin kom út. Pontiac Firebird kom út árið 1967 til þess að keppa við Ford Mustang. Árið 1969 kom Trans Am útfærslan út og var kraftmeiri. Bíllinn varð tákn uppreisnar og ævintýra, sem heillaði marga. Útfærsla bílsins úr myndinni kom með 6,6 lítra V8 vél og var í kringum 200 hestöfl. Árin eftir myndina jókst salan gríðarlega á Pontiac Trans Am í Bandaríkjunum.

James Bond
Flestir þekkja njósnarann hennar hátignar James Bond, en hann er ein þekktasta sögupersóna nútímans. Margir mismunandi leikarar hafa leikið Bond í gegnum áratugina og stíllinn hefur verið mismunandi. Sean Connery gaf Bond skemmtilegan sjarma á meðan Daniel Craig var alvarlegri Bond. Það er tvennt sem hefur ekki breyst hjá Bond. Það fyrra er hvernig Bond vill hafa kokteillinn sinn, hristan en ekki hrærðan, og það seinna er ást hans á Aston Martin. Bond hefur keyrt marga Aston Martin bíla, en sem dæmi má nefna Aston Martin Vanquish, DBS og DB9. Sá allra klassískasti er 1964 Aston Martin DB5, sem kom fyrst fram í myndinni Goldfinger árið 1964. Í myndinni er hann búinn allskonar spæjara græjum, eins og vélbyssum, reyksprengjum og fleiru. Bíllinn kemur einnig fram í öðrum Bond myndum, eins og í Skyfall þegar DB5 þurfti að þola töluvert magn af byssukúlum og endaði með því að bíllinn sprakk í loft upp sem gerði Bond brjálaðan. Annar áhugaverður Bond bíll er Lotus Esprit S1, sem kom fram í The Spy Who Loved Me árið 1977. Sá bíll breytist í kafbát í myndinni. Það væri vissulega hentugt að eiga svoleiðis bíl.
