Eyþór Arnalds hefur í nógu að snúast þessa dagana og er svo sem vanur því að hafa í mörg horn að líta en í kvöld stígur Eyþór á svið á Hard Rock en hann og aðrir liðsmenn Tappa Tíkarras halda þar tónleika í tilefni af útgáfu vínylplötu hljómsveitarinnar. „Tónleikagestir mega eiga von á krafti og gleði en Tappinn byggir einmitt á því að vera glaður og spila hátt og snjallt,“ segir Eyþór.
Eyþór sem er einnig í framboði í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem fram fer þann 27. janúar næstkomandi segir börnin, stjórnmál, tækni og bætta heilsu eiga hug hans allan en hann lyftir sex sinnum í viku spurður um daglega rútínu. „Spegillinn lýgur ekki og fyrir nokkrum mánuðum stóð ég fyrir framan einn slíkan og sá að ég þyrfti að taka mig á. Nú er ég í betra formi og líður betur líkamlega og andlega,“ segir hann.
Verði Eyþór borgarstjóri Reykvíkinga segist hann ætla að leysa umferðarvandann með raunsæjum lausnum og vill að peningar borgarinnar fari í þjónustu við íbúa hennar en ekki yfirbyggingu. „Við þurfum líka að sjá til þess að átak verði gert í lestri í grunnskólum og að leikskólar verði betur mannaðir svo börn séu ekki send heim eða í vinnu til foreldra vegna manneklu. Eins vil ég að borgin verði snyrtilegri og lofa því að verði ég borgarstjóri ætla ég að vera umboðsmaður borgarbúa sem þeir hafa aðgang að.“