Róbert Wessman prýðir forsíðu nýjasta tölublaðs Eftir vinnu þar sem hann ræðir um viðskipti, víngerð og það sem drífur hann áfram í öllum hans verkefnum.

Róbert Wessman prýðir forsíðu nýjasta tölublaðs Eftir vinnu þar sem hann ræðir um viðskipti, víngerð og það sem drífur hann áfram í öllum hans verkefnum.

Róbert segir að meirihluti veltu á lyfjamarkaði í framtíðinni muni líklega verða vegna líftæknilyfja. Með þessari tegund lyfja hafi náðst mikill árangur í meðferð við gigtarsjúkdómum, krabbameini og fleiri sjúkdómum. Þau séu því farin að skipta sköpum í meðferð við þrálátum sjúkdómum.

„Í dag eru 40% af allri heimsveltu lyfja vegna líftæknilyfja en 60% af nýjum lyfjum í þróun eru líftæknilyf, svo þessi hlutdeild á eftir að aukast. Frumlyf eru með einkaleyfi í 20 ár, eða um 10 ár á markaði, 10 ár í þróun þannig að frumlyfin eru afar dýr, ársskammtur af sumum líftæknilyfjum kostar allt upp í 150.000 dollara. Þetta er allt of dýrt þannig að ef við getum komið inn og boðið þessi lyf á umtalsvert betri kjörum þá getum við gert þessi lyf aðgengileg fyrir fólk sem gæti annars ekki fengið þau.“

„Þegar Alvotech byrjaði að þróa fyrsta lyfið, hliðstæðu við Humira, var það söluhæsta lyf í heimi. Ársskammtur af frumlyfinu kostaði 90.000 dollara, það eru 12 milljónir á einstakling. Og bara brot af þeim sem þurfa á lyfinu að halda, fá það. Í mörgum löndum er það þannig að ef lyfjakostnaður er borgaður af ríkinu þá er einhver ákveðin upphæð sem er til ráðstöfunar til þess að eyða í líftæknilyf en ef hún er búin þá fá ekki fleiri lyfin, þó þeir þurfi á þeim að halda. En með okkar hliðstæðulyfjum er hægt að kaupa margfalt meira magn fyrir sömu fjárhæð.“