Á dögunum kynnti Toyota aðra kynslóðina af C-HR með breyttum búnaði og útliti. Þar ber hæst ný og aflmeiri 2 lítra Hybrid vél sem gerir bílinn aflmeiri og sportlegri í akstri. C-HR heldur sínu striki og er áfram framúrstefnulegur útlits. Það má segja að með C-HR hafi Toyota búið til lífsstílsbíl.

C-HR er skilgreindur sem crossover og stendur svolítið mitt á milli þess að vera tveggja dyra fólksbíll og nettur sportjeppi. Hönnunin byggir á formum sem samanstanda af kraftalegum sveigjum og skörpum línum. Þetta er afgerandi hönnun og þessar straumlínulöguðu útlínur gera hann frábrugðinn öðrum bílum.

Húddið flæðir yfir brettalínuna sem gefur bílnum kröftugt útlit sem fer vel með áberandi framljósunum og grillinu. Laglega mótaðar hurðirnar mæta svörtum hurðarpóstum sem gefa toppnum skemmtilega fljótandi útlit.

Afturljósin ná alveg þvert yfir sem gefur flottan svip ásamt vel hönnuðum afturstuðara. Handföngin á afturhurðunum eru efst í horninu og svolítið falin þannig að við fyrstu sýn virðist bíllinn vera tveggja dyra.

Nánar er fjallað um Toyota C-HR í Bílablaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina í heild sinni hér.