Fyrsta brautskráningin af sérstakri námsbraut fyrir verslunarfólk, fagnámi verslunar og þjónustu, við Verzlunarskóla Íslands, fór fram fimmtudaginn 17. desember sl. fór fram fyrst, en útskriftarnemarnir voru þrír talsins, allt þaulreyndir verslunarmenn.
Viðskiptablaðið ræddi við Margréti Sanders sem þá var fráfarandi formaður Samtaka verslunar og þjónustu um hugmyndina að námsbrautinni en hún vildi að reynsla þeirra sem hefðu lengi starfað við verslun ætti að meta sem ígildi náms.
Því fór það svo að fulltrúar frá bæði VR og Samtökum verslunar og þjónustu leituðu til Verzlunarskólans með hugmynd að námsbraut fyrir verslunarfólk og þróunarhópur var myndaður með þremur fyrirtækjum, Samkaup, Húsasmiðjunni og Lyfju.
Verslunarmennirnir þrír sem luku náminu eru frá Samkaupum, þau Aðalbjörg Valdimarsdóttir, Sara Líf Fells Elíasdóttir og Jón Steinar Brynjarsson, sem lauk jafnframt stúdentsprófi frá Verzlunarskólanum í fjarnámi samhliða fagnámi verslunar og þjónustu.
Staðfesting á hæfni verslunarfólks
Starfsmenntasjóður verslunar- og skrifstofufólks vann að þróun námsins en tilgangurinn er að veita verslunarfólki tækifæri til að fá staðfestingu á hæfni sinni með raunfærnimati og að gera þekkingu þeirra sýnilegri. Námið er hvort tveggja fjarnám við Verzlunarskóla Íslands og vinnustaðanám hjá fyrirtækjunum.
Sífellt meiri kröfur eru gerðar um hæfni verslunarfólks og miklar breytingar eru að eiga sér stað í vinnuumhverfi þess, fjölgun netverslana og sjálfsafgreiðslukassar í matvöruverslunum eru dæmi þar um. Við blasir að störfin munu breytast enn meira á næstu árum og því mikilvægt að starfsfólki standi til boða þjálfun til þess að geta unnið við breytt verkefni.
Í fagnáminu eru fjölbreyttar námsgreinar, svo sem þjónusta og samskipti, bókfærsla, stjórnun, fjármálalæsi, neytendahegðun, umhverfisfræði, verslunarréttur, birgðastjórnun og sölutækni. Námsframboðið er í stöðugri endurskoðun og tekur mið af þeim breytingum sem eru efstar á baugi hverju sinni.