Ungversku vinkonurnar Zsófia Nagy og Bernadette Varga buðu gestum Götubitahátíðarinnar, sem fór fram í Hljómskálagarðinum um síðustu helgi, upp á einn frægasta rétt sem fæst í heimalandi þeirra, Lángos.

Rétturinn samanstendur af djúpsteiktu flatbrauði sem er svo toppað með ýmsum áleggstegundum eins og sýrðum rjóma, osti og kjöti.

Zsófia og Bernadette hafa búið á Íslandi í nokkur ár og hafa þegar fengið tækifæri til að bjóða upp á ungverskan mat á Írskum dögum og á Víkingahátíðinni í Hafnarfirði. Þetta var hins vegar í fyrsta sinn sem þær tóku þátt í Götubitahátíðinni.

„Við þurftum að undirbúa margt, ekki bara fyrir matinn heldur líka að undirbúa okkur andlega. Það eru til ýmsar tegundir af lángos en fyrir þessa hátíð vorum við með tvær tegundir, confit-önd og geitaost.“

Þær segja að margir Íslendingar kannist nú þegar við Lángos eftir tannlæknaferðir til Ungverjalands eða mögulega eftir læknanámsdvöl í landinu en síðan eru margir sem hafa heyrt um matinn og vilja prufa hann.

„Margir vilja prufa eitthvað nýtt og það góða við matinn okkar er að brauðið er ferskt þegar við djúpsteikjum það og verður því bæði mjúkt og stökkt. Það er svo gaman að sjá þegar einhver prufar þetta í fyrsta sinn því fyrstu kynni eru alltaf svo frábær.“