Mercedes Benz G-Class í fullri rafútgáfu er væntanlegur til landsins í byrjun næsta sumars.

Bíllinn var sýndur útvöldum á bílasýningunni í München í byrjun september. Rafútgáfan af G-Class verður mun ódýrari en grunngerðin sem er í boði í dag.

Rafjeppinn fer í framleiðslu í Graz í Austurríki í ársbyrjun. Honum var töluvert breytt árið 2018.

Bæði var hann lengdur og breikkaður meðal annars til að geta komið öllum nýmóðins tæknibúnaði í bílinn og einnig til að auka þægindi ökumanns og farþega.

Hugmyndaútgáfan af rafútgáfunni var frumsýnd fyrir tveimur árum. Margir áttu von á að bílinn kæmi mun seinna, eða í fyrsta lagi 2025. Bíllinn fær útlitsuppfærslu en hún snýst aðallega um að minnka loftmótstöðuna.

Í myndbandinu hér að neðan má sjá G jeppann taka svokallað G-turn, eða G-snúning, líkt og skriðdrekar geta. G jeppinn getur það því hann er með fjóra rafmótora, einn á hverju hjóli.

Margt á huldu

Forsvarsmenn Mercedes-Benz hafa enn sem komið er gefið heldur litlar upplýsingar um bíllinn. Lítið hefur verið gefið út um tæknibúnað bílsins, svo sem drægi, hestöfl og verð.

Erlend bílablöð hafa fjallað mikið um rafútgáfuna. Drægi fyrstu bílanna verður að sögn blaðanna í kringum 500 km samkvæmt WLTP staðlinum.

Mercedes Benz G jeppinn á 45 ára afmæli á næsta ári. Bíllinn á myndinni sigraði Paris Dakar rallýið árið 1983.

Hestaflafjöldinn er einnig talinn verða í kringum 500 hestöfl á grunngerðinni. Taka verður þó þessum upplýsingum með fyrirvara.

Nánar er fjallað um rafútgáfuna af G-Class í Bílum, bílablaði Viðskiptablaðsins, sem kom út í gær. Áskrifendur geta lesið blaðið hér.