Fyrrum sendiherrabústaður Íslands í London var seldur fyrir 22 milljónir punda, eða sem nemur yfir 3,6 milljörðum króna, á dögunum. Um er að ræða dýrustu fasteignaviðskipti í Mayfair-hverfinu í ár, samkvæmt fasteignasölunni sem sá um viðskiptin.
Utanríkisráðuneytið seldi sendiherrabústaðinn að 101 Park Street í Mayfair-hverfinu á 8,7 milljónir punda árið 2009. Kaupverðið samsvaraði þá um 1,7 milljörðum króna eða sem jafngildir 3,2-3,3 milljörðum króna á núverandi verðalagi.
Íslenska ríkið keypti húsið um miðja síðustu öld og hýsti það um tíma sendiráð Íslands í London.
Bústaðurinn var seldur til að bæta afkomu ríkissjóðs. Í staðinn var keyptur annar ódýrari bústaður fyrir 4,5 milljónir punda, eða sem hljóðaði upp á 835 milljónir króna á þáverandi gengi, samkvæmt umfjöllun Morgunblaðsins á sínum tíma.
Gamli sendiherrabústaðurinn er 645 fermetrar, er á fimm hæðum og inniheldur sjö svefnherbergi. Húsið var byggt á árunum 1924-1925 og var upphaflega í eigu stjórnarformanna knattspyrnufélagsins Arsenal.
Kaupandinn er ekki nafngreindur tekið er fram í fréttinni að hann sé mjög efnaður aðili (e. „ultra-high-net-worth buyer). Ekki er heldur tilgreint hver seljandinn er en eignin gekk síðast kaupum og sölum árið 2011.
Nálgast má myndir af húsinu hér.