Flest þekkjum við þá tilfinningu að finnast við og fólkið í kringum okkur eyða miklum tíma í símanum og stundum verðum við mjög þreytt á áreitinu sem fylgir notkun þessara annars frábæru tækja. Símalaus sunnudagur sem fram fer sunnudaginn 26. nóvmber er átak á vegum Barnaheilla til að vekja okkur til umhugsunar um áhrif símanotkunar á samskipti innan fjölskyldunnar.
Að sögn Ernu Reynisdóttur framkvæmdastjóra Barnaheilla, er markmið átaksins er að vekja nútímafólk til vitundar um áhrif af notkun snjallsíma á samskipti og tengslamyndun foreldra og barna. „Á símalausum sunnudegi lifum við eins og árið sé 1985! Við stingum símanum ofan í skúffu klukkan níu um morguninn og tökum hann ekki upp aftur fyrr en klukkan níu um kvöldið.“
Hugmyndin spratt m.a. upp úr meistaraprófsritgerð í félagsráðgjöf við HÍ sem heitir Samkeppnin við snjallsímana.
Helstu niðurstöður ritgerðarinnar sýna fram á að miklar breytingar hafa orðið á samskiptum í kjölfar snjallsímans, bæði hvernig þau fara fram og hvernig snjallsími hefur áhrif á samskipti sem eiga sér stað hér og nú. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að snjallsímanotkun foreldra geti haft áhrif á tengslamyndun foreldra og barna. Það á einkum við í aðstæðum þar sem foreldri er andlega fjarverandi sökum snjallsímanotkunar. Slíkar aðstæður geta leitt til þess að barn finni fyrir óöryggi og jafnvel höfnun sem getur haft áhrif á þroska þess.
„Okkur fannst því tilvalið að hvetja fólk til að huga að þessum málum með hag barna og fjölskyldna að leiðarljósi. Með því að taka þátt og skrá sig inn á slóðinni http://simalaus.barnaheill.is/ fær fólk send ráð á laugardeginum um hvernig það getur tekist á við símalausa sunnudaginn. Þátttaka gefur einnig möguleika á að vinna jólapeysu frá Hagkaup/F&F eða út að borða með fjölskyldunni á Hamborgarafabrikkunni,“ segir Erna bjartsýn að lokum og skorar á fólk að njóta símalausa dagsins sem best og taka engar símamyndir af því.