Það er frekar auðvelt að gefa veiðifólki gjafir því það er yfirleitt ánægt með allt sem tengist þessu skemmtilega áhugamáli. Á Íslandi er fjöldi veiðiverslana, þar sem hægt er að finna skemmtilegar gjafir. Sé fólk í vandræðum með að finna gjöf er alltaf hægt að biðja fagmenn veiðiverslana að velja nokkrar fallegar flugur í box. Veiðimenn eiga aldrei of margar flugur. Hér er stiklað á stóru og bent á nokkrar skemmtilegar gjafir, sem Viðskiptablaðið telur að myndu hitta í mark.

Kaffikassi Reiðu andarinnar

Það er ekkert betra en að fá sér kaffisopa á árbakkanum. Reiða öndin selur fallega kassa, þar sem allt er á einum stað. Í kaffikassanum er Bialetti mokka kaffikanna, gashitari ásamt gasi, Bialetti mokkabollar, tvær flöskur, viskastykki, kaffi og að sjálfsögðu súkkulaði. Þetta er ekki bara gjöf fyrir veiðifólk heldur líka útivistarfólk.

Reiða öndin.

49.000 krónur.

Vatnsheld húfa

Hlý húfa frá Sealskinz sem er að fullu vatnsheld. Hún er kjörin til alhliða nota á Íslandi enda stendur hún af sér hraustlegustu lægðir. Húfan er tilvalin í veiðina, gönguferðir, hjólreiðar, útileguna eða í útivinnuna. Hún kemur sannarlega að góðum notum þegar kalt og blautt er í veðri. Sealskinz húfan fæst í nokkrum litum.

Veiðiflugur, Veiðifélagið, Ellingsen.

Verð frá 6.995 kr.

Dagatal veiðimannsins

Veiðihornið selur skemmtileg jóladagatöl fyrir veiðfólk. Hægt er að velja á milli dagatals með 24 silungaflugum eða dagatal með 24 laxaflugum. Í ytri umbúðum jóladagatalsins eru 24 minni box, hvert merkt einum degi frá 1. til 24. desember. Í hverju boxi er vönduð veiðifluga sem á eftir að lokka margan fiskinn á nýju ári. Auk flugunnar er í boxinu nafn hennar og QR kóði sem leiðir eigandann á síðu með frekari upplýsingar og fróðleik um fluguna.

Veiðihornið.

13.995 - 15.995. kr.

Yeti í happy hour

Bandaríska fyrirtækið Yeti framleiðir þessi skemmtilegu vínglös, sem eru tilvalin fyrir happy hour á árbakkanum, útileguna eða garðveisluna. Glasið, sem er einangrað og úr ryðfríu stáli, rúmar tæplega 300 ml. og heldur víni lengi í réttu hitastigi. Það kemur með plastloki og renniloku, sem auðveldlega er hægt að taka af ef fólk er ekki mikið að sulla. Hægt er að fá þessi glös frá Yeti í nokkrum frísklegum litum.

Veiðihornið.

5.495 kr.

Stangarhaldari á belti

Stangarhaldarinn frá O'Pros smellpassar á öll 1-2 tommu breið vöðlu- eða mittistöskubelti. Með stangarhaldaranum getur veiðimaðurinn fest stöngina ef hann þarf til dæmis að nota báðar hendur til að skipta um flugu. Á stangarhaldaranum er teygja til þess að tryggja enn betur að stöngin sé föst. Hægt er halla stangarhaldaranum eins og maður vill, raunar snýst hann í 360 gráður.

Flugubúllan og Vesturröst.

4.490 - 5.990 kr.

Laxaháfur sem fellur saman

Sterkbyggður háfur frá Abu Garcia sem hentar í lax- og sjóbirtingsveiði. Unnt er að fella háfinn saman svo hann taki minna pláss þegar ferðast er. Net háfsins er afar sterkt og eru möskvar þess gúmmíhúðaðir. Á háfnum er útdraganlegt skaft og að auki sérstakt handfang til aukinna þæginda. Stærð háfsins er 70×60 cm og dýptin 90 cm.

Veiðiflugur.

19.995 kr.

Vatnsheld mittistaska

Fyrsta vatnshelda mittistaskan frá Loop sem rúmar allt sem þarf við veiðar. Taskan er með rúllulokun og því þarf ekki að hafa áhyggjur af innihaldi hennar þegar vaðið er djúpt eða þegar rignir. Í mittistöskunni er eitt stórt aðalhólf sem hægt er að skipta upp og skipuleggja eftir þörfum. Ytri byrði töskunnar býður upp á ýmsa möguleika, s.s. til að festa tæki og tól sem gott er að hafa við höndina. Þá er unnt að festa vatnsbrúsa við botninn. Taskan er með góðu belti en því eru tvö minni hólf sem hugsuð eru til að geyma smáhluti.

Veiðiflugur.

23.995 kr.

Snúran

Snúran er hálsmen fyrir veiðifólk með öllum fylgihlutum þarf í veiðina. Hálsmenið er gert úr leðursnúru með mjúkum leðurkraga. Á snúrunni eru festingar fyrir fylgihluti eins og klippur, töng til að losa flugu úr fiskum og hring til að herða hnúta. Snúran kemur í mörgum litum og er þægileg fyrir veiðimenn sem vilja hafa allt á einum stað.

Reiða öndin og ýmsar veiðiverslanir.

15.000 kr.

Jólagjafahandbókin fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér og nálgast blaðið hér.