Við héldum til Norður Skotlands snemma á sunnudagsmorgni fyrir rúmri viku síðan, til að prófa nýjan Toyota Land Cruiser 250. Þetta var forprófun á bílnum því aðeins fjórir bílar eru komnir til Evrópu.

Í hugum flestra er Land Cruiser einn fárra alvöru jeppa en frumkrafan er að ökutækið sé byggt á grind. Það gerir jeppann nær ódrepandi en langflestir Krúserar, sem hafa verið fluttir inn til landsins eru enn á götunni.

Æfingaakstursvæðið var ekki af verri gerðinni hjá Japönunum. Apardjón-skíri varð fyrir valinu, en það kölluðum við Íslendingar sýsluna umhverfis olíuborgina Aberdeen í eina tíð.

Bækistöðvar okkur voru í smábænum Ballater, sjarmerandi bæ sem liggur við ánna Dee. Þar var sú lestarstöð sem var næst Balmoral kastalanum, þar sem Elísabet II Bretadrottning lést í september í fyrra.

Við fjöllum ítarlega um nýjan Land Cruiser í Bílum, sérblaði Viðskiptablaðsins, sem kemur út í byrjun maí.

Mjúku línurnar hurfu og harðar komu í staðinn sem gerir Land Cruiser miklu mun jeppalegri. Í þessu felst yfirlýsing um að jeppinn sé fær í flestan sjó.

Allt annar bíll

Toyota Land Cruiser 250 tekur í haust við keflinu af 150 bílnum sem hefur verið framleiddur í næstum 15 ár. Sá gamli hefur verið metsölubíll á Íslandi frá fyrsta degi og ég hef fengið tækifæri til að aka honum reglulega og alltaf stendur hann fyrir sínu. En það var vissulega kominn tími á breytingar.

Stærsta breytingin með komu nýja 250 bílsins fyrir allt venjulegt fólk eru mun betri aksturseiginleikarnir á venjulegum malbikuðum vegi.

Sá nýi liggur mjög vel á veginum, er rásfastur og vorum við öruggir með okkur þegar við mættum bílum úr gagnstæðri átt á þröngum skoskum sveitavegunum.

Nýr Land Cruiser kemur í sérstakri útgáfu fyrsta árið sem nefnist First Edition. Meðal þess sem er frábrugðið eru hringlaga framljósi.

Ekki má gleyma því, að þótt stýrið væri réttu megin í bílunum þurftum við auðvitað að aka á öfugum vegarhelmingi og þá reyndi á bíl og ökumann. Þessi vinstri akstur er einkennilegur en vandist furðu fljótt. Það er kannski þessari blessuðu vinstri ríkisstjórn okkar að þakka og er hún þá ekki alveg gagnslaus.

Skriðstillingin kom mjög á óvart

Það sem kom mest á óvart við reynsluaksturinn var skriðstillingin. Hún hefur verið í boði sem valbúnaður en aldrei gefist tækifæri til að prófa hana. En nú gafst það loks í alvöru torfærum.

Þú setur í lága drifið, stillir á skriðstillinguna, ákveður eitt af fimm þrepum og bíllinn sér sjálfur um að skríða upp og niður torfæruna sem á vegi þínum verður. Eina sem bílstjórinn þarf að gera er að stýra.

Þetta svínvirkaði. Við prófuðum sömu brekkurnar með því að keyra sjálfir og svo láta bílinn um verkefnið. Hvort tveggja gekk ágætlega. Þegar bílinn var í skriðstillingunni þá fór hann hægar yfir en spólaði ekkert þrátt fyrir grenjandi rigningu, rennhála drullu, stórgrýti og brattar brekku.

Nánari umfjöllun verður um nýja Toyota Land Cruiser í Bílablaði Viðskiptablaðsins sem kemur út í maí.