Glænýr Skoda Elroq hefur verið kynntur til leiks hjá Heklu, umboðsaðila Skoda á Íslandi, en bíllinn hefur farið sigurför um heiminn og hlaut m.a. nýlega fyrstu verðlaun í flokki rafknúinna fjölskyldubíla, What Car? - Car of the Year Awards 2025.

Með Elroq kynnir Skoda nýja hönnun sem nefnist Modern Solid og er forsmekkurinn af því sem koma skal í nýjum módelum frá Skoda. Elroq er því fyrsti bíllinn sem skartar nýjum framenda.

Elroq er alrafmagnaður og með allt að 580 km drægni samkvæmt WLTP-staðlinum. Hraðhleðslugeta bílsins er allt að 175 kW sem gerir kleift að hlaða hann frá 10% upp í 80% á 28 mínútum. Farangursrýmið er 470 lítrar en hægt er að stækka það í 1.580 lítra með því að fella niður sæti.

Bíllinn er ríkulega búinn staðalbúnaði og kemur meðal annars með bakkmyndavél, fjarhitun í appi, 13” margmiðlunarskjá, 19” felgum, hita í stýri, lyklalausu aðgengi og svo mætti lengi telja.