Tengslamyndun í Félagi kvenna í atvinnulífinu (FKA) fer fram á margvíslegan hátt, í hælaskóm, sandölum, gönguskóm og búast má við því að tengslamyndun muni aðallega eiga sér stað í golfskóm næstu daga.
,,Með samvinnu, samtali og fjölbreyttum viðburðum um landið allt á sér stað tengslamyndun í félaginu og golfnefndir FKA eru þekktar fyrir að slá í gegn og það breytist ekkert," segir Bryndís Emilsdóttir, formaður Golfnenfndar. „Fjölmörg vináttu- og viðskiptasambönd hafa myndast hjá Félagi kvenna í atvinnulífinu. Þá oft og iðulega á golfvellinum á árlegu golfmóti FKA,“ segir Bryndís sem á lokametrunum í undirbúningi fyrir mótið sem hefst í dag á Hótel Hamri.
„Konur sem taka þátt verða að vera með skráða forgjöf og dagskráin er frá morgni til kvölds. Dagurinn hefst á unaðslegum morgunmat þegar við vöknum, tökum 18 holur báða dagana, fáum nestispakka með okkur á völlinn, borðum saman á kvöldin og svo er það gleði, heilsuefling og notaleg samvera fyrir afganginn," bætir Bryndís við sem er á lokametrunum í undirbúningi fyrir mótið sem hefst í dag á Hótel Hamri. .
„Við erum ótrúlega þakklátar fyrir veglega vinninga og glaðninga sem við getum afhent á mótinu að vanda. Við spilum í 2 daga, verðlaunaafhending verður á lokakvöldi," segir Ragnheiður Friðriksdóttir, meðlimur golfnefndar.
„Það sem golfnefndin gerði öðruvísi í ár var að standa fyrir golfnámskeiði, kennt í Básum golfæfingasvæði, fyrir félagskonur sem vildu kynna sér sportið og lífstílinn sem fylgir golfinu," segir Nína Vigdísardóttir Björnsdóttir, meðlimur golfnefndar.
„Það er alltaf eitthvað nýtt en ávallt sama fjörið í FKA," segir Bryndís. „Verð að þjóta, það er verið að ræsa fyrsta holl út!“
Golfnefnd 2020-2021 frá vinstri efri röð: Bryndís Emilsdóttir formaður nefndar, Soffía Theodórsdóttir, Helga Björg Steinþórsdóttir og Ólöf Guðmundsdóttir. Neðri röð frá vinstri: Elfa Björk Björgvinsdóttir, Nína Vigdísardóttir Björnsdóttir, Vigdís Segatta og Ragnheiður Friðriksdóttir.