Þá eru enn önnur jólin gengin í garð, enn eitt árið að lokum komið og því tilvalið að koma sér vel fyrir einhvers staðar og glöggva sig á árvissri yfirferð Áramóta yfir græjur ársins.
Hér er ekki um eiginleg meðmæli að ræða, né heldur er listanum ætlað að endurspegla vinsældir eða viðtökur. Fyrst og síðast er listinn valinn út frá áhugaverðri hönnun, tæknilegum eiginleikum og hugmyndaauðgi.
Samsung Odyssey Neo G9 – 57“
Þegar hinn upprunalegi, 49 tommu Samsung Odyssey G9 kom á markað árið 2020 var hann af mörgum talinn besti leikjaskjár á markaðnum, fyrir utan reyndar að vera frábær í alls konar.
Þótt stærðin sé það fyrsta sem blasir við – en hann jafngildir akkúrat tveimur 27“ skjáum hlið við hlið – hefur hann ýmislegt annað fram að færa á borð við 240hz endurnýjunartíðni, 5120 x 1440 upplausn og 1ms svartíma, auk þess að vera akkúrat nógu bogadreginn til að samsvara boganum í sjónsviði mannsaugans.
Árið eftir kom út endurbætt útgáfa sem bætti við þetta 2.048 sjálfstæðum baklýsingarsvæðum og ber nafnbótina Neo G9, og í fyrra kom út OLED útgáfa með sama nafni. Allir hafa þeir þó verið jafn stórir – sem og reyndar fyrirrennari þeirra, CRG9 – en í ár gaf Samsung út 57“ útgáfu.
Það kann að hljóma hlutfallslega lítið en það gerir skjáinn sjálfan þó 35% stærri að flatarmáli. Að sjálfsögðu var svo upplausnin samhliða því stækkuð upp í 7680 x 2160, og jafngildir nú tveimur 4K skjáum hlið við hlið.
Hafi einhver hugsað sér að slá til eftir lesturinn er rétt að benda á að skjárinn er rúmir 1,3 metrar á breidd og vegur yfir 15 kíló án standsins, sem er meira en flestir skjáarmar ráða við.
Blitzwolf fjöltengi
Fjöltengi er eitt af þessum raftækjum sem fæstum dettur líklega í hug að feli í sér mikil tækifæri fyrir nýsköpun og framþróun.
Flest höfum við vanist því í gegnum áratugina að á meðan tækninni fleygir vissulega fram á fjölmörgum sviðum, þá líti gömlu góðu fjöltengin hér um bil eins út í dag og á tímum kalda stríðsins. Í mesta lagi gæti verið búið að bæta við litlu USB-tengi í dag.
Einhver hefur þó bersýnilega hugsað út fyrir kassann og séð tækifæri þar sem aðrir sáu stöðnun þegar hugmyndin að þessu tengi kviknaði. Tengið ræður við 2.500 vött og inniheldur þrjár hefðbundnar innstungur (svokallaðar Shucko innstungur) auk þriggja USB-tengja sem bjóða bæði Apple og Android símum upp á mjög hraða hleðslu.
Eero Max 7
Það var kannski ekki sérstaklega augljóst eða viðbúið næsta skref þegar tæknirisinn Amazon tók sig til og fór að þróa og selja netbeina (e. Router) undir merkjum eero. Flestir hafa svosem kannski heldur ekkert brennandi áhuga á netbeinum almennt.
En það er einmitt það sem eero, þar með talinn hinn glænýi Max 7, ganga út á. Tækið er sáraeinfalt í notkun og krefst afar lítils af eiganda sínum auk þess að vera mun stílhreinna í útliti en margir öflugir og vel útbúnir routerar, án þess þó að gefa þeim eftir hvað tæknihliðina varðar.
Eins og nafnið gefur til kynna styður tækið nýjustu kynslóð wifi samskiptastaðalsins, wifi 7, sem reyndar er svo nýr að sá eiginleiki er ekki líklegur til að nýtast mikið fyrst um sinn. Kaupendur verða því þó vafalaust fegnir að vera búinn að búa sér aðeins í haginn hvað þetta varðar, og þurfa þar með ekkert að pæla í routernum sínum næstu árin.
Nánar er fjallað um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.