Guðmundur Hafsteinsson, stjórnarformaður Icelandair, hefur keypt fasteign að Grímshaga 8 á 273 milljónir króna. Guðmundur hefur búið skammt frá á Grenimel í Vesturbæ.

Húsið er 229,8 fermetrar að stærð og var verð á fermetra því 1,19 milljónir króna. Fasteignamat hússins er 148,6 milljónir króna. Húsið er teiknað af Gunnari Hanssyni arkitekt og skráð byggingarár er 1964.

Guðmundur er stofnandi og framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Fractal 5 og starfaði þar áður sem yfirmaður í vöruþróun hjá Google. Hann hefur setið í stjórn Icelandair frá árinu 2018 og tók við sem stjórnarformaður fyrir ári síðan.

Seljendur eru hjónin Dóra Gunnarsdóttir og Arnar Már Kristinsson. Þau keyptu húsið árið 2017 og gerðu það upp. Dóra lýsti því í viðtali við Fréttablaðið tveimur árum síðar að áður en þau keyptu hafi bæði húsið og garðurinn verið í niðurníðslu en þeim hafi fundist spennandi gera það upp. Strax eftir afhendingu rifu þau allt út og skiptu um þak.