Á Sprotaráðstefnunni TechBBQ sem haldin var í Kaupmannahöfn á dögunum, og þónokkrir Íslendingar mættu á, var ýmislegt áhugavert að sjá.

Aragrúi fyrirlestra og annarra viðburða var í boði þá tvo daga sem ráðstefnan stóð yfir. Til að allir heyrðu skýrt í þeim sem fram komu var nóg af þráðlausum heyrnatólum í boði. Ekki aðeins var tengingin órofin og skýr um alla bygginguna – svo gestir gátu rölt um og skoðað básana, fengið sér kaffibolla, komið sér vel fyrir eða gætt sér á ís sem búinn var til úr afgangs banönum – heldur mátti skipta milli þess sviðs sem hlustað var á með einföldum takka.

Því miður var nýjasta tækni þó ekki í boði á öllum sviðum ráðstefnunnar. Ekki var tekið við greiðslukortum til að greiða fyrir veitingar á staðnum, heldur þurfti að notast við reiðufé, sem þeim ráðstefnugestum sem undirritaður ræddi við fannst skjóta ansi skökku við á ráðstefnu sem kenndi sig við nýsköpun og tækni.

Aldrei heyrt um rafíþróttir
Eins og gengur og gerist voru erindin og fyrirtækin eins misjöfn og þau voru mörg, þótt auðvitað mætti finna ákveðinn samhljóm með flestum þeirra.

Andrúmsloftið var þrungið framsýni og spennu fyrir því að takast á við þær áskoranir sem tækniframfarir næstu ára og áratuga munu hafa í för með sér. Talsvert var rætt um hið stafræna eftirlitssamfélag sem litið hefur dagsins ljós síðustu ár, og það vantraust margra gagnvart tækniþróun og tæknirisum sem því hefur fylgt.

Aðrir fyrirlestrar voru á léttari nótum. Sem dæmi voru fengnir háttsettir yfirmenn alþjóðlegu tölvuleikjafyrirtækjanna Riot Games og Wargaming, auk írsks tækniblaðamanns, til að ræða öran vöxt rafíþrótta. Blaðamaðurinn hóf umræðuna á því að segja frá því að fyrir viku, þegar hann hafi verið fenginn til að stýra pallborðsumræðunum, hafi hann aldrei heyrt á rafíþróttir minnst, og því þurft að fletta þeim upp á netinu sér til undirbúnings.

Hann spurði svo viðmælendurna tvo hverja þeir teldu helstu ástæðu þess að margir vissu ekki af tilvist rafíþrótta, en þeir svöruðu yfirvegaðir á þá leið að þeir teldu reyndar vel flesta sem nokkuð þekktu á annað borð til tæknimála vera meðvitaða um iðnaðinn, og báðu þá áhorfendur sem það væru að rétta upp hönd. Undirritaður hefur ekki nákvæma tölu á þeim fjölda er það gerðu, en óhætt er að segja að blaðamaðurinn írski var í minnihluta.