Þrátt fyrir að jólin séu hátíð ljóss og friðar eru þau einnig mikil hátíð fyrir íþróttaáhugamenn og þá sérstaklega áhugamenn um enska boltann. Á meðan flestar knattspyrnudeildir í Evrópu fara í jólafrí  verða leiknar fjórar umferðir í ensku úrvalsdeildinni frá 21. desember til 3. janúar og verða því leiknir samtals 40 leikir á 14 daga tímabili. Þessu til viðbótar verða leikir á öllum dögum fyrir utan aðfangadag, jóladag og gamlársdag.

Eins og áður segir hefst veislan föstudagskvöldið 21. desember þegar lærisveinar Jürgen Klopp í Liverpool heimsækja Wolves á Molineux leikvangnum en átta leikir fara svo fram daginn eftir auk þess sem Gylfi Sigurðsson fær fyrrverandi liðsfélaga sína í Tottenham í heimsókn á Þorláksmessu.

Stærsti dagur unnenda enska boltans er þó vafalaust annar í jólum. Komist knattspyrnuáhugamaðurinn hjá því að fara í hið klassíska jólaboð á annan í jólum getur hann horft á fótbolta í nær 12 klukkustundir samfellt. Fjörið byrjar á leik Fulham og Wolves kl. 12.30. Klukkan þrjú er svo meðal annars hægt að velja á milli Íslendingaslagsins í viðureign Burney og Everton auk þess sem Manchester United, Liverpool, Manchester City og Tottenham eiga öll leik klukkan þrjú. Kl 17.15 fer fram leikur Brighton og Arsenal en vaktinni lýkur svo með leik Watford og Chelsea sem hefst 19.30.

Þrátt fyrir að jólavertíðin sé öllum liðum mikilvæg þar sem margt getur breyst í fjórum umferðum er óhætt að segja að Liverpool eigi mest undir yfir hátíðarnar. Liðið sem stefnir að því að vinna úrvalsdeildina í fyrsta skipti í 29 ár fær Arsenal í heimsókn þann 29. desember og jólavertíðinni lýkur svo með sannkölluðum stórleik þegar Liverpool heimsækir ríkjandi meistara í Manchester City fimmtudaginn 3. janúar. Gera má ráð fyrir að úrslit þess leiks muni hafa töluvert að segja um hvaða lið endar uppi sem Englandsmeistari í maí.

Styttra á milli LeBron og Curry

Hafi íþróttaáhugamaðurinn áhyggjur af því að ekkert sé í gangi þá daga sem ekki er leikið í ensku deildinni þarf hann þó ekki að örvænta. Það er í raun orðin jólahefð í NBA deildinni að LeBron James mæti sínum helstu keppinautum í Golden State Warriors á jóladag og er engin breyting á því í ár. Síðustu þrjú ár hefur hann mætt þeim sem leikmaður Cleveland Cavaliers en nú  er hann mættur í treyju Los Angeles Lakers þar sem hann freistar þess að hefja hið sögufræga lið aftur til fyrri hæða eftir nokkur mögur ár. Leikurinn hefst á miðnætti að íslenskum tíma aðfaranótt annars í jólum og því upplagt fyrir íþróttaáhugamanninn að setjast niður eftir jólaboð á jóladagskvöld og fylgjast með tveimur af bestu leikmönnum NBA deildarinnar, Leborn og Stephen Curry, eigast við.

Þá mun 16 leikvika NFL deildarinnar fara fram frá 22. desember fram á jóladag. Forsvarsmönnum deildarinnar virðist engu máli skipta hvort það séu jól eða ekki enda fer langstærstur hluti hverrar umferðar fram á sunnudegi. Aðfangadagur bar einmitt upp á sunnudag í fyrra og fór þó heil umferð fram. Áhugamenn deildarinnar eiga auðveldara með að fylgjast með nú en í fyrra þar sem 13 leikir fara fram á Þorláksmessu en að mati NFL sérfræðings Viðskiptablaðsins stendur viðureign Pittsburgh Steelers og New Orleans Saints þar upp úr til að fylgjast með yfir skötunni. Þessu til viðbótar verður svo hægt að fylgjast með leik Denver Broncos og Oakland Raiders á jólanótt.

Skylmingarþrælar nútímans

„Fyrir hinn almenna íþróttaáhugamann eru jólin algjör gósentíð þó að dagarnir á milli leikja geta verið erfiðir,“ segir Tómas Þór Þórðarson, íþróttafréttamaður á Vísi og Stöð 2 Sport, en hann er vandfundinn sá Íslendingur sem hefur jafn yfirgripsmikla þekkingu á íþróttum eins og hann.  „Einhverja daga er ekkert í gangi en það er svosem fínt að hitta fjölskyldu líka um jólin þannig það er líklega ágætt að enski boltinn sé ekki í gangi alla daga. Jólin væru þó töluvert leiðinlegri án enska boltans þó þau sé kannski ekki jafn skemmtileg fyrir leikmennina sjálfa. Það er nánast verið að murka líftóruna úr leikmönnum með því að spila á næstum tveggja daga fresti en okkur er alveg sama þar sem þeir fá fullt af peningum fyrir þetta. Þeir eru í raun skylmingarþrælar nútímans um jólin. Þar sem ég er íþróttafréttamaður er ég meira í þeirri stöðu að vera að vinna í staðinn fyrir að vera bara að njóta. Aftur á móti vinn ég við að meðal annars lýsa íþróttum sem telst nú ekki vinna á mörgum bænum.“

Erfiður aðfangadagur í fyrra

Tómas segir að aðfangadagur í fyrra hafi verið erfiður fyrir áhugamenn um NFL þar sem heil umferð var leikin á meðan jólahátíðin gekk í garð. „Það er nógu óvinsælt þegar maður er að kíkja á síminn í almennum kaffiboðum, hvað þá þegar maður var að reyna að fylgjast með heilli NFL umferð við jólaborðið. Þá þarf maður aðeins að passa sig. Ég náði nú alveg að hemja mig en þegar tími gafst til þá reyndi maður að kíkja á „red zone-ið“ og sjá eitt til tvö leikkerfi til að reyna að fá eina auka jólagjöf frá Tom Brady.“