Skemmst er frá því að segja að hver einasta íbúð á lista yfir tíu dýrustu íbúðir landsins, sem Viðskiptablaðið tók saman og fjallaði um í nýjasta tölublaði, er staðsett í Austurhöfn.

Sú dýrasta er 354 fermetra þakíbúð í Bryggjugötu 6 en eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrir tæplega ári festi félagið Dreisam ehf., sem er í eigu Jónasar Hagan Guðmundssonar fjárfestis, kaup á íbúðinni. Fermetraverð þakíbúðarinnar hljóðar því upp á 1,75 milljónir króna.

Íbúðin er sú stærsta af þeirri 71 íbúð sem byggð var í Austurhöfn og hefur verið fullyrt að hún sé dýrasta íbúð Íslandssögunnar.

Þakíbúðin við Austurhöfn er horníbúð með útsýni yfir Reykjavíkurhöfn og sundin. Íbúðinni fylgja tvennar svalir og tvö bílastæði en innangengt er í íbúðina beint úr lyftu. Eignin var seld fokheld en miðað er við að í henni verði sex herbergi og fjögur baðherbergi.

„Gluggar til þriggja átta fylla íbúðina mjúkri, náttúrulegri birtu. Stórar svalir bjóða upp á óviðjafnanlegt útsýni yfir hafið og lifandi höfnina og aðrar horfa yfir garðinn,“ segir um íbúðina í kynningarefni frá Austurhöfn.

Tíu dýrustu íbúðir landsins árið 2022

Heimilisfang Kaupverð (m.kr.) Stærð (fm) Fermetraverð (þ.kr.)
1. Bryggjugata 6 620 354 1.753
2. Geirsgata 17 505 291 1.738
3. Bryggjugata 2 495 304 1.630
4. Bryggjugata 4 310 199 1.559
5. Reykjastræti 5 295 198 1.487
6. Bryggjugata 6 280 179 1.565
7. Geirsgata 17 279 196 1.421
8. Bryggjugata 6 275 203 1.358
9. Bryggjugata 4 270 176 1.533
10. Bryggjugata 2 265 195 1.360
Heimild: HMS

Umfjöllunina má lesa í heild í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.