Ungur að aldri eða um feringu, keypti Magnús Scheving sér sinn fyrsta bíl.
„Það var Mercury Cougar 1969 árgerð. Ég var svikinn illa í þeim viðskiptum því vélin var ónýt. Ég eyddi öllum sparnaðinum mínum í þennan bíl. Ég lærði mikið á þessum bílakaupum, lexíu sem ég hef getað lært af og tekið sem veganesti út í lífið. Síðan þá er ég búinn að eiga mikinn fjölda bíla og ætli þeir telji ekki nálægt hundrað talsins. Svo hef ég átt mikið af mótorhjólum líka. Ég byrjaði að keyra mótorhjól 11 ára gamall. Snemma á lífleiðinni ákvað ég að drekka ekki né reykja og spara mér þá eyðslu og nota andvirði þess frekar í að safna mér fyrir gömlum bílum. Ég hef sérstaklega gaman af blæjubílum og hef átt þá nokkra. Mitt vandamál, sem var nú bara lúxus vandamál, var það að ég var alltaf í mikilli vinnu líka flest kvöld og helgar og þegar kom gott veður, sól og rigningalaus dagar, hittist það sjaldan á að maður átti frí þann daginn. Að hitta á frí og gott veður gerðist alltof sjaldan, nánast aldrei, svo ég gat ekki keyrt þessa bíla mikið. Stundum liðu nokkur ár á milli bíltúra en ég var duglegur að setja í gang og strjúka þeim aðeins en það er auðvitað nauðsynlegt að hreyfa þá reglulega. Sumir af þessum bílum hafa aldrei verið keyrðir í rigningu.
Ég á t.d. Corvette Stingray 1964 módel sem ég keyrði ekki í 14 ár. Ég tók bílinn loks út úr bílskúrnum fyrir tveimur árum og er nýfarinn að keyra hann. Ég myndi mæla með að eiga ekki of fína bíla því þá notar maður þá meira.“
Skemmtilegt áhugamál
„Ég veit ekki hvort það er góð fjárfesting að kaupa eða eiga fornbíl en það er gott alla vega fyrir heilsuna í mínu tilfelli. Ég hefði kannski átt að fjárfesta frekar í íbúð en það hefði aldrei verið eins gaman. En þetta er skemmtilegt áhugamál. Það er samt dýrt að eiga gamlan bíl. Það kostar formúgu að gera upp vélina t.d. í gömlum Benz.“
Magnús segist oft leigja sér gamla bíla þegar hann er erlendis í fríum. „Ég fór með konunni minni í ómetanlega ferð til Ítalíu á Covid tímanum og við leigðum þá Alfa Romeo 1969 og 1971 módel. Við ókum um allt og þetta var alveg geggjuð ferð. Þar sem þetta var í Covid gat ég ekið inn á Piazza Republico í Róm og það var enginn annar bíll á götunum í kringum torgið sem er einstakt. Og engir túristar að þvælast um heldur. Ég tók flottar myndir þar sem við erum ein í heiminum á Alfa Romeo í miðri Róm. Ég hef ekið mikið um Ítalíu og finnst gaman að aka um ítölsku sveitirnar á klassískum, gömlum ítölskum blæjubíl. Þetta er mitt jóga að keyra gamlan, klassískan bíl. Það er líka yndislegt að aka um Þingvelli með nesti og teppi aftur í og slaka á í piknik eftir skemmtilegan bíltúr.“
Nánar er fjallað um málið í sérblaði Viðskiptablaðsins, Bílar. Áskrifendur geta lesið viðtalið við Magnús í heild hér.