Icelandair mun á laugardaginn setja á stofn nýjan klúbb sem ætlaður er golfáhugamönnum. Klúbburinn hefur aðsetur á vefnum "icelandairgolfers.is"
og verður formlega opnaður á golfsýningunni á Nordica hótelinu nú um helgina. Formaður klúbbsins og ritstjóri vefsins er Heimir Karlsson, fjölmiðlamaður og kylfingur.
"Icelandair stofnar klúbbinn til þess að sinna enn betur þörfum þess stóra og sístækkandi hóps kylfinga sem ferðast til útlanda til að spila golf, byrjendum ekki síður en lengra komnum. Það er óhætt að hvetja alla þá til þess að skrá sig í klúbbinn á Icelandairgolfers.is því félagar munu njóta þess með margvíslegum hætti", segir Heimir.
Sem dæmi má nefna að félagar í Icelandairgolfers.is greiða enga yfirvigt af golfsetti sínu í flugi með Icelandair, þeir fá 2500 vildarpunkta, ýmiskonar afsláttarkjör og glaðninga, auk þess sem þeir fá með aðgangi að vefnum miklar og gagnlegar upplýsingar um golfferðir og golfvelli sem henta þörfum íslenskra kylfinga. Klúbburinn verður síðan þróaður áfram í takt við óskir og þarfir félaga.
Icelandair flýgur í sumar til 22 áfangastaða í Bandaríkjunum og Evrópu og á þeim öllum býðst að leika golf á frábærum golfvöllum.