Ebba Katrín Finnsdóttir er rísandi stjarna í leikhúsheiminum. Hún hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir leik sinni í „Orð gegn orði“ í Þjóðleikhúsinu. Í verkinu er tekist á við spurningar um réttarkerfið, siðgæði, sekt og sönnunarbyrði í tengslum við kynferðisof beldi. Í viðtali við Eftir vinnu viðurkennir hún að hlutverkið hafi reynt á hana andlega og líkamlega, en hún segir það vera gefandi og mikilvægt að skapa umræðu um slík mál á leiksviðinu. Ebba leggur áherslu á að hlúa að eigin heilsu til að geta staðið sterk í þessu krefjandi hlutverki.

Um jólahátíðina fær Ebba að sýna aðra hlið í leikritinu „Jólaboðið“, þar sem hún færir áhorfendum bæði hlátur og jólastemningu ásamt því að leika í barnasýningunni Frost. Sjálf segir hún jólin vera heilagan tíma þar sem fjölskyldan kemur saman og heldur í gamlar hefðir. Með kærastanum sínum, leikaranum Oddi Júlíussyni, er hún einnig að skapa sínar eigin jólahefðir, og hún segir það einstakt að eiga maka sem skilur þennan skapandi og krefjandi heim leikhússins.

Heldur fast í hefðirnar

Í Jólaboðinu stígur hún á svið og leiðir áhorfendur í gegnum jólahátíðina í hundrað ár, frá 1918 til dagsins í dag. Leikritið fylgir fjölskyldu þar sem jólahefðir þróast og umbreytast í takt við tímann. Hún fæðist á sviðinu, deyr og endurfæðist sem nýr karakter. „Ég er byrjuð að æfa fyrir sýninguna, og það er farið að koma jólaskap yfir mig,“ segir hún brosandi. Jólahátíðin hefur sérstaka þýðingu fyrir hana. „Jólin eru frekar heilög fyrir mér,“ segir hún og lýsir því hversu erfitt henni hefur reynst að hugsa sér að halda jól annars staðar en hjá foreldrum sínum. „Ég get eiginlega ekki hugsað mér jólin án þeirra og bræðra minna.“ Fjölskyldan heldur fast í ákveðnar hefðir, þar á meðal að heimsækja kirkjugarðinn og heiðra minningu ástvina með púrtvíni og vindlum. „Við förum alltaf í kirkjugarðinn á aðfangadag til að hitta föðurfjölskylduna,“ segir hún. „Það hefur verið fastur liður í mörg ár að skvetta púrtvíni á leiðið hjá ömmu og leggja vindil á leiðið hjá afa.“

Hún lýsir jóladagskvöldinu sem frekar afslöppuðu, en fjölskyldan hennar heldur ekki fast í það að allt þurfi að vera fullkomið. „Við þurfum ekkert að vera sest þegar kirkjuklukkurnar hringja klukkan sex,“ segir hún hlæjandi og rifjar upp hvernig hún hefur hvatt móður sína til að stressa sig ekki á því að allt ætti að vera tilbúið á mínútunni. „Það eru alveg jól þó að þau byrji korter yfir,“ segir hún létt og bætir við að hún vildi gjarnan losa um þessar ósýnilegu kröfur um fullkomnun sem svo margir finna fyrir um hátíðarnar.

Fjölskyldan skiptir Ebbu miklu máli og hún getur ekki hugsað sér að vera án foreldra sinna og bræðra á jólunum.

Fékk leiklistarbakteríuna í menntaskóla

Listin var stór hluti af uppeldi Ebbu Katrínar sem hún segir hafa mótað sig mikið. „Foreldrar mínir eru báðir rekstrarhagfræðingar en mamma vann á Listasafni Íslands í fjölda ára og pabbi spilar á flygil og skrifar ljóð þannig að ég myndi segja að þau væru bæði listamenn í álögum. Ég hef alltaf verið heppin hvað það varðar, alltaf farið mikið með þeim á listviðburði. Mömmu megin er mikil tónlist, afi minn er kontrabassa og sellóleikari og spilaði í gryfjunni í Þjóðleikhúsinu og amma mín var sætavísa þannig að þau kynnast í Þjóðleikhúsinu. Langamma mín var auk þess leikkona en hún flúði stríðið hingað frá Vínarborg og var þýskumælandi svo hún vann aldrei við það eftir að þau flúðu.“

Ebba Katrín segir að þrátt fyrir að hafa haft mikinn áhuga á leikhúsi, hafði hún aldrei ímyndað sér sjálfa sig á sviðinu. Það var ekki fyrr en í Verslunarskólanum að hún fann sig á sviðinu. „Ég þorði ekki að sækja um í Nemendaleikhúsinu fyrsta árið, og komst ekki inn á öðru ári,“ rifjar hún upp. En þegar hún loksins fékk tækifæri til að spreyta sig fann hún ástríðu fyrir leikhúsinu vakna hjá sér, og síðan þá hefur þessi ástríða ekki slokknað. „Það var alls konar annað sem ég gat hugsað mér að gera, en á einhvern hátt líður mér eins og þetta hafi bara orðið að veruleika án þess að ég hafi tekið skýra ákvörðun um það.“

Hún segist þó vera með breitt áhugasvið og það sé margt sem hún geti hugsað sér að gera ásamt því að fara í frekara nám. Hún segir framtíðina óráðna og það sé ákveðinn sjarmi yfir því. „Ég veit ekkert hvort ég verð alltaf í leikhúsi jafnvel þó ég vilji það. Þetta er bara starf sem er háð svo mörgu öðru. Fólk þarf að vilja vinna með mér og svo þarf mikið heilbrigði til þess að geta þetta, af því þetta er ákveðin íþróttamennska líka. En ég er rosalega einbeitt í þessu núna og ég held að þetta sé skemmtilegasti vinnustaður í heiminum. Það er geðveikt að vinna hérna og eftir að vera búin að prófa þetta þá sé ég ekki hvernig maður gæti setið einhvers staðar frá níu til fimm. Það er líka algjör gæfa að fá að vera á fótum að hreyfa sig í vinnunni ásamt því að vera spá í málefnum líðandi stundar og kryfja mannlega hegðun, það er ótrúlega gaman.“

Fyrsta jólatréð gæti orðið að veruleika hjá Ebbu og Oddi í ár, en hingað til hafa þau aðeins skreytt eina plöntu á jólunum.

Gekk nærri sér með erfiðu hlutverki

Ebba Katrín hefur nú sýnt „Orð gegn orði“ vikulega í meira en ár, og það hefur reynst henni þungbært á köflum. „Það er auðvitað ekki á hverju leikári sem maður tekur svona verkefni að sér, en ég lít á þetta sem mjög nærgöngult og krefjandi hlutverk,“ segir hún. „Ég vissi að þetta yrði erfitt, en það var enn meira krefjandi en ég gerði mér grein fyrir.“ Hún útskýrir að málefnið sé svo vanrækt og hlutverkið reynist henni sem leikkonu vera ákveðið þjónustuhlutverk, þar sem hún verður eins konar farvegur fyrir sársauka annarra. „Það er ekki hægt að standa upp á sviði og segja svona sögur án þess að taka inn það sem er í rýminu,“ bætir hún við.

Til þess að vera betur undir það búin að takast á við slíkt, hefur Ebba leitað sér utanaðkomandi aðstoðar. „Fyrst var ég ein að burðast með þetta og velta því fyrir mér hvernig ég ætti að takast á við allt sem kom til mín og öll skilaboðin sem ég fékk. Ég er jú ekki fagaðili,“ segir hún. „En maður vill að leikhúsið hreyfi við fólki og stuðli að umræðu, svo það er bara á mína ábyrgð að passa upp á mig og eigin heilsu.“

Hún viðurkennir að hafa fundið fyrir aftengingu og dofa, auk streitueinkenna eins og svima, þreytu og doða í höndum. „Þá þurfti ég bara að læra að tækla mig í þessum aðstæðum,“ segir hún. Það tók þó tíma, og hún viðurkennir að hún hefði líklega átt að leita aðstoðar fyrr. „Það þarf ekki að leita langt til að finna sársaukann, því þetta er allt í kringum okkur. Tölfræðin sýnir að ein af hverjum þremur í salnum hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi,“ segir hún. „Ef ég væri að vinna með eitthvað persónulegt frá mér sjálfri gæti ég þetta ekki. En ég set mig í spor annarra og læt samkenndina leiða mig. Þetta er eitthvað djúpt sammannlegt sem sýningin virðist kalla fram.“

Eitt af því sem vakti athygli hennar þegar hún las handritið var hvernig hennar eigin skilningur á mörkunum var flóknari en hún hafði gert sér grein fyrir. „Ég hélt að ég vissi alveg hvar mörkin lægju, en þegar ég fór að skoða þetta nánar, fattaði ég að ég sjálf var líka í drullupollinum og sá ekki öll lögin sem samfélagið er orðið samdauna,“ segir hún. „Ég þurfti bara að kyngja því, kvenréttindakonan sem ég er.“

Loksins í fríi um jólin

„Ég er svo heppin að vera í jólafríi í ár, þannig að jólamaturinn mun líklegast renna ljúft niður, sem er ekki alltaf málið þegar maður er í frumsýningarstressi,“ segir Ebba með létti. Hún og maki hennar, Oddur, eru að flytja í nóvember og íhuga nú að fá sér sitt fyrsta jólatré. „Hingað til höfum við bara skreytt einhverja plöntu,“ segir hún hlæjandi. „Þetta er tíminn til að búa til okkar eigin jólahefðir, sérstaklega þar sem þetta er í fyrsta skipti sem við erum hvorugt í jólasýningunni.“

Ebba segir að það sé sérstök gæfa að eiga maka sem er einnig leikari. „Ég sé bara kosti við það. Það er alltaf fullur skilningur og ótrúlega gaman að vera með einhvern til að deila hugmyndum með og grípa sig. Við hvetjum hvort annað í öllu,“ segir hún og brosir. „Svo er hann bara svo ljúfur og yndislegur.“ Í ár leika þau saman í „Frost“ og „Jólaboðinu“ og segir Ebba að það sé frábært að fá að eyða þessum tíma saman. „Jólaboðið er mjög fyndin sýning, og ég kvíði svolítið fyrir því af því að mér finnst hann svo fyndinn. Hann er strax farinn að kynda undir mér, þannig að þetta gæti orðið áskorun!“

Kveður árið í faðmi fjölskyldunnar

Áramótin eru líka tími sem henni finnst ómissandi að eyða með fjölskyldunni. „Ég get ekki hugsað mér að vera annars staðar á gamlárskvöld en með þeim,“ segir hún hlæjandi. Fyrir hana er þetta tækifæri til að líta yfir árið sem er að líða og hugsa um það sem hún hefur upplifað og áorkað á þeim tíma. Hún lýsir því að líf hennar hafi breyst mikið með hlutverkinu í „Orð gegn orði“ og að hún sé stolt af áhrifunum sem sýningin hefur haft á áhorfendur.

Að lokum lítur hún bjartsýn til framtíðar, með opinn hug fyrir þeim ótal möguleikum sem lífið hefur upp á að bjóða. „Ég hef aldrei fengið jafn mikla endurgjöf og fundið að eitthvað sem ég er að gera hafi svona mikil áhrif,“ segir hún og þakkar fyrir að hafa fengið tækifæri til að þróa og dýpka starf sitt í gegnum þetta krefjandi en gefandi ár.

Viðtalið við Ebbu Katrínu er úr Jólagjafahandbók Eftir vinnu.

Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta lesið blaðið í heild hér.