Í áratugi hafa veiðimenn við Laxá í Kjós og reyndar fleiri stöðum, blótað vestanáttinni. Aðrir veiðimenn hafa talið þetta hið mesta þvaður því vindátt geti ekki haft áhrif á veiði. Með upplýsingum úr vatnsgæðamæli, sem settur var í ána í vor, virðist komin staðfesting á því að vestanáttin er frekar glötuð vindátt fyrir veiðimenn.
„Um miðja síðustu öld skrifaði Björn Blöndal um helvítis vestanáttina,“ segir Haraldur Eiríksson, leigutaki Laxár í Kjós. „Þannig að þetta er ekkert nýtt. Þetta er versta vindáttin hér í Kjósinni þegar kemur að veiði. Núna erum við auðvitað að mæla vatnsgæðin og við tókum eftir því að þegar það gerir vestanátt þá hverfa allar náttúrulegar sveiflur. Við sjáum öll góð gildi vatnsins falla og geta árinnar til að brjóta niður lífræn efni hverfur að hluta. Þar er líklega komin skýringin á grámanum sem kemur yfir ána í vestanáttinni — áin verður mjög óveiðileg. Menn brostu alltaf þegar maður sagði að það væri komin vestanátt og áin orðin grá en nú virðist vera komin staðfesting á því að þetta er raunin. Ef lífræn efni leysast ekki jafnmikið upp í vestanátt þá fljóta þau niður ána. Það er því kannski engin mýta að vestanáttin geri ána gráa.“
Viðtalið í heild má lesa í sérblaðinu Veiði, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.