Systurnar Edda Hermannsdóttir og Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir hafa ákveðið að bjóða konum upp á sérstakt námskeið í því að koma efni vel á framfæri í fjölmiðlum og öðrum vettvangi.
Báðar hafa þær langa reynslu af fjölmiðlastörfum, en Edda starfar í dag sem samskiptastjóri Íslandsbanka en Eva Laufey hefur starfað við dagskrárgerð á Stöð 2 auk þess að halda úti matarvefsíðu.
„Við höfum kynnst því í gegnum tíðina að konur eru oft á tíðum ragari við að koma fram í fjölmiðlum enda sýna tölur Creditinfo að í ljósvakamiðlum eru 35% tilfella kvenviðmælendur,“ segir Edda um ástæður þess að námskeiðið sé sérstaklega ætlað konum.
„Vissulega helst þetta líka í hendur við að það eru færri konur sem eru við stjórnvölinn en oft á tíðum skortir konum sjálfstraust til að stíga fram.“
Það sem verður meðal annars farið yfir á námskeiðinu er:
- Hvernig skrifarðu grein?
- Hvernig flyturðu glærukynningu?
- Hvernig undirbýrðu og flytur ræðu?
- Hvernig undirbýrðu þig fyrir sjónvarpsviðtöl?
- Hvernig undirbýrðu þig fyrir útvarpsviðtöl?
- Hvernig undirbýrðu þig fyrir fundarstjórn?
- Hvernig undirbýrðu þig fyrir þátttöku í panelumræðum?
- Hvernig breytirðu verkefnum í viðskiptatækifæri?
Auk þess hyggjast þær fjalla um konur og launaviðræður og hvernig gott tengslanet geti nýst í leik og starfi. „Okkur datt því í hug að deila okkar reynslu í gegnum tíðina en báðar höfum við reynslu af fjölmiðlum og af því að koma fram,“ segir Eva Laufey.
„Ansi mörg okkar þurfa að koma fram til að koma efni á framfæri, hvort sem það eru viðtöl, ræður, greinar og framvegis. Við munum því fara yfir þetta á námskeiðinu í haust sem mun því nýtast mörgum í ólíkum geirum.“
Sumarið nýtt til að láta vaða
Námskeiðið verður haldið í haust, í hátíðarsal Gróttu fimmtudaginn 13. september milli klukkan 17 og 19 en frekari upplýsingar má fá á facebook síðu námskeiðsins. „Við vorum báðar snemma ófeimnar við að koma fram ungar og eigum það sameiginlegt þó við höfum farið ólíkar leiðir undanfarin ár,“ segir Edda.
„Við höfum líka báðar tekið viðtöl við konur í störfum okkar og vitum að þær eru varkárar þegar þær koma fram sem er ekki slæmur hlutur – en stundum þurfa konur að láta meira vaða.“