Toyota Land Cruiser er ein elsta jeppategund sem enn er í framleiðslu. Byrjað var að framleiða jeppann árið 1951 og alls hafa 11,7 milljónir Krúsera verið framleiddir frá upphafi. Í Áramótum, tímariti Viðsksiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, er fjallað um sögu Land Cruiser en hér birtist brot úr þeirri umfjöllun.

Toyota frumsýndi 70 seríuna af Land Cruiser árið 1984.
Toyota frumsýndi 70 seríuna af Land Cruiser árið 1984.

70-bíllinn var bylting

Toyota frumsýndi 70-seríuna árið 1984. Þessi bíll var bylting í samanburði við 40-seríuna. Nýi Krúserinn var boðinn í tveimur gerðum. Annar var hugsaður fyrir evrópskan markað og nefndist Light Duty. Hann var með allri nútímatækni. Hinn var eins konar vörubíll og nefndist Heavy Duty.

Báðar gerðir komu í ótrúlegum fjölda útgáfa og fimm vélar voru í boði, allt frá fjögurra strokka díselvél í átta strokka bensínvél með túrbínu. Vinsældir Land Cruiser jukust enn við komu 70-seríunnar.

Hér má sjá Land Cruiser 300, sem og nýju 70 seríuna og Land Cruiser 250.
Hér má sjá Land Cruiser 300, sem og nýju 70 seríuna og Land Cruiser 250.

Arfleifðin leynir sér ekki

Í vor kynnti Toyota nýjan Land Cruiser 250 sem kemur á markað árið 2024. Það má segja að Toyota hafi með þessu farið áratugi aftur í tímann, heil 40 ár. Ástæðan er að hörðu línurnar eru snúnar aftur og arfleifðin leynir sér ekki.

Hinn nýi 250-bíll tekur við af minni Krúsernum, 150-bílnum. Sá hafði tekið við af 120-bílnum sem kom á markað 2003 og var byggður á grunni 90-bílsins. Það verður fróðlegt að sjá viðtökurnar en líklegt er að þær verði stórgóðar. Því bílakaupendur vilja heldur bíla með sál og tilvísunin í fortíðina eykur líkurnar á því að hana vanti ekki.

En Toyota hefur gengið enn lengra. Þeir hafa birt myndir af glænýrri 70-seríu, sem er nánast eins og sú gamla en með öllum nútíma búnaði. Það má því segja að Toyota sé loks orðinn spennandi bílaframleiðandi eftir að hafa fyrst og síðast verið þekktastur fyrir áreiðanleika og lága bilanatíðni, sem eru samt ekki slæmir eiginleikar. Þess má geta að Land Cruiser er sú bílategund, sem heldur sér hvað best í verði og það á ekki síst við hér heima á Íslandi.

Nánar er fjallað um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.