Bandarísku hjónin og hönnuðirnir Charles og Rey Eames voru frumkvöðlar í nútíma arkitektúr og hönnun. Þau unnu á öllum helstu sviðum listar og hönnunar eins og grafík, við kvikmyndir og arkitektúr en eru hvað þekktust fyrir húsgagna- og vöruhönnun sína.
Eames hjónin eiga heiðurinn af mörgum af fallegustu og klassísku húsgagnalínum sögunnar. Hönnun þeirra er einstök, bæði tímalaus klassísk og eru vinsælar um heim allan, sönnum fagurkerum og hönnunaráhugafólki til ánægju og yndisauka.
Eames hjónin störfuðu á sjötta og sjöunda áratug aldarinnar þegar módernisminn var í blóma. Módernisminn spratt fram í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar þegar Evrópa var í molum eftir stríðið. Módernisminn byggðist fyrst og fremst á einfaldleika og litið var á hönnun sem nauðsynlegan þátt í því að auka lífsgæði og skapa hlýlegt andrúmsloft. Ný tækni og efni höfðu þróast á stríðsárunum og voru nú hvati fyrir hönnuði sem leiddi til frjórrar hönnunar og nýrrar vöru á markaði. Hönnunin varð bæði djarfari og skúlptúrískari en áður hafði þekkst.
Eames hjónin sem og fleiri hönnuðir héldu sig ekki við einn stíl heldur fundu sér nýjar leiðir í sköpun sinni. Hönnuðir tóku nú að hanna og framleiða úr áður óþekktum efnum eins og plasti og stáli sem bæði var ódýrt og auðvelt að forma og meðhöndla.

MEÐ VINNUSTOFU Í GAMALLI VÖRUGEYMSLU Í ÚTHVERFI LA
Charles var arkitekt en Rey var myndlistarkona. Þau kynntust eftir að Rey fékk vinnu á vinnustofu Charles en þau giftu sig árið 1941. Parið var á undan sinni samtíð í mörgum skilningi. Á þessum tíma var hlutverk kynjanna misskipt. Eiginmaðurinn var útivinnandi og sá fyrir tekjum heimilisins en hlutverk konunnar var að sjá um heimili og börn. Eames hjónin voru að mörgu leyti ólík öðrum og sannir frumkvöðlar, þau voru bæði par og vinnufélagar. Þau voru samrýmd hjón og unnu að flestöllum verkefnum í sameiningu.
Andrúmsloftið í kringum þau var létt og skemmtilegt og nýir hönnuðir og arkitektar biðu í röðum eftir að komast að á vinnustofu þeirra sem var í gamalli vörugeymslu í úthverfi Los Angeles borgar. Hugmyndafræði Eames hjónanna fólst í að leysa ákveðin verkefni á fallegan, einfaldan og skemmtilegan máta.
Þau aðhylltust Less is More hugmyndafræðina sem fól í sér einfaldleika. Í þeirra huga var hönnun áætlun um að koma hlutum þannig fyrir að þeir þjónuðu tilteknu hlutverki sem best. Hjónin breyttu innanhússhönnun með frumlegum hlutum og húsgögnum sem tóku mið af nútíma arkitektúr og saman hönnuðu þau ein af áhrifamestu húsgögnum tuttugustu aldar.

TÍMALAUS HÖNNUN
Charles og Rey Eames voru í samstarfi við þekkt fyrirtæki og framleiðendur eins og svissneska hönnunarfyrirtækið Vitra og bandaríska húsgagnaframleiðandann Hermann Miller. Þessi fyrirtæki voru brautryðjendur í hönnun á módernískum húsgagnalínum.
Hjónin hönnuðu Eames Molded Plywood Lounge Chair LCW fyrir Vitra árið 1945, en eitt af nýju efnum modernismans í húsgagnagerð var formbeygður krossviður. Eames hjónin lögðu mikinn metnað og vinnu í að fullkomna þessa nýstárlegu aðferð svo að stóllinn félli sem best að formi líkamans. Playwood Group stólaserían er afrakstur þessarar vinnu hjónanna.

FÉKK FYRSTU VERÐLAUN Í SAMKEPPNI MOMA Í NEW YORK
Eames RAR ruggustóllinn fyrir Hermann Miller leit dagsins ljós árið 1950. Stóllinn fékk fyrstu verðlaun í samkeppni í MoMA í New York. Stóllinn var gerður úr trefjaplasti, stáli og tré en plastið var vinsæll og ódýr efniviður sem veitti hönnuðum frelsi til sköpunar.
Eames Occasional Table LTR kom fram á sjónarsviðið árið 1950 en hjónin hönnuðu borðið fyrir Vitra. Þarna skinu í gegn einkennandi stílhreinar línur modernismans sem var eitt aðal einkennismerki Eames hjónanna. Borðið bauð upp á marga möguleika á uppröðun, bæði eitt stakt eða nokkur saman sem sköpuðu ákveðið frelsi.
Eames Wire Chair DKR var hannaður af þeim hjónum fyrir Vitra árið 1951. Stóllinn er eingöngu úr stáli og með leðursessu. Stóllinn er einkennismerki modernismans en húsgögn úr stáli voru ódýr í framleiðslu.
Þau hönnuðu fatahengið Hang it all fyrir Vitra árið 1953. Hjónin hönnuðu einnig skemmtilegar og fjölbreyttar barnalínur. Fatahengið er einkennandi fyrir hugmyndafræði Eames hjónanna; að gleyma ekki barninu í sér. Eitt frægasta húsgagn þeirra hjóna er
Eames Lounge Chair sem þau hönnuðu fyrir húsgagnaframleiðandann Herman Miller árið 1956. Bæði þægindi og formfegurð gera hann að einum mest selda stól í heimi. Djúpar, leðurklæddar sessur og bak sameina bæði þægindi, lúxus og tímalaust útlit.

Umfjöllunina er að finna í nýjasta tölublaði Eftir vinnu sem kom út á miðvikudag.
Hér er tölublaðið í heild fyrir áskrifendur Viðskiptablaðsins.