Vala Kristín Eiríksdóttir leikkona segir að það sem helst hafi staðið upp úr á árinu hafi verið tökur á fjórðu seríu af Venjulegu fólki. Hún er smám saman að skríða saman í heimsfaraldrinum og venjast því að fara aftur að vinna á fullu í leikhúsinu. „Þættirnir fjalla um vinkonurnar Júlíönu og Völu. Þótt þær heiti sömu nöfnum og við leikkonurnar þá eru þær ekki byggðar á okkur, kannski lauslega í upphafi en ekki lengur. Þetta eru í rauninni bara fyndnir og hjartnæmir þættir um allskonar. Hvernig það er að vera manneskja, vinkona, maki og að verða foreldri í fyrsta sinn."
Vala Kristín segir það að leika á sviði og í sjónvarpi í grunninn vera það sama. Það er samt eitthvað við það að leika fyrir framan fólk í rauntíma, það myndast einhver töfrastund, þar sem allir deila sama augnablikinu. Þú heyrir fólk hlæja og taka andköf en svo heyrir þú líka þögnina ef enginn bregst við."
Hún segir hlátur áhorfenda verka eins og vítamínsprautu. „Hlátur er svo heilandi og losar um svo mikið. Það er ekkert betra en að leika í sýningu og salurinn liggur í hláturskasti. Þegar ég leik drama er erfiðara að lesa viðbrögð áhorfenda. Fólk er að upplifa allskonar og líður allskonar en gefur ekki frá sér hljóð. Hlátur er svo mælanlegur kvarði á hvort þér er að takast það sem þú ætlaðir þér."
Jólin eins og stórt knús
Vala Kristín var einn af höfundum Áramótaskaupsins í fyrra og segir að skemmtilegasti parturinn af því ferli hafi verið að horfa á það með góðum vinum. Hún var með smá kitl í maganum á gamlárskvöld og fann svo fyrir miklum létti þegar vinirnir hlógu yfir Skaupinu. „Skaupinu var mjög vel tekið í fyrra og það staðfesti það sem við höfðum rætt, að gaman væri að gera aðeins meira grín að fólkinu í landinu. Hvernig erum við að bregðast við þessum tímum og hvernig getum við hlegið að þessum hörmungum? Okkur langaði að kafa dýpra í þjóðarsálina frekar en að hjóla í yfirvöld.
Vala segist vera mikið jólabarn. „Mér finnst jólin æðisleg og ef það er góð afsökun til að borða góðan mat og hafa það kósý með kerti og seríur þá er ég til í þá hátíð. Jólin eru smá ljósið í myrkrinu. Ég á mjög erfitt með skammdegið og finn mikið fyrir því en svo koma jólin eins og risa knús inn í svartasta myrkrið."
Hún er núna farin að skapa jólahefðir með unnusta sínum. „Í mínum uppvexti var ekki mikið fast í skorðum varðandi jólin en það var alltaf ákveðinn vinahópur mömmu og pabba sem kom og það var elduð skata, lyktin var ógeðsleg og fólk hálfpartinn manaði sig í að borða þetta. Þegar gestirnir fóru þá sögðu þeir alltaf „nú mega jólin koma fyrst við erum búin að koma í skötu hingað". Þetta hefur alltaf setið í mér og mig langar að fólk upplifi það sama hjá mér. Þessi hefð hefur því skapast núna á mínu heimili og það verður ekki vikið frá henni - algjörlega ómissandi þáttur í okkar jólahátíð."
Viðtalið við Völu Kristínu má finna í heild sinni í Jólagjafahandbók, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .