Nýja 16“ útgáfan af MacBook Pro fartölvunni vinsælu verður með mun hljóðlátara lyklaborði en áður hefur þekkst. Takkarnir verða hannaðir á hátt sem kenndur hefur verið við skæri (scissor-mechanism), sem sagt er að muni bæta úr þeim ýmsu göllum sem fylgt hafi fiðrilda-hönnuninni sem á undan kom.
Þá verður nýjasta útgáfa svokallaðra Pixelbook frá Google – sem eru ódýrar en afllitlar tölvur sem keyra á stýrikerfi frá Google sjálfu í stað Windows – að sama skapi með svokallaða suss-takka (hush keys).
Blaðamaður Wall Street Journal hljóðprufaði fartölvulyklaborðin nýju í hljóðeinangruðum klefa. Skemmst er frá því að segja að hljóðstyrkur gamla MacBook lyklaborðsins var að meðaltali 41,9 desíbel, en það nýja mældist aðeins 30,3.
Suss-takkarnir á nýju Pixelbook Go slógu nýja Apple lyklaborðinu við með naumindum, en þeir mældust 30,1 desíbel. Til samanburðar voru Surface Laptop 3 frá Microsoft og Dell XPS 13 einnig hljóðmældar, en lyklaborð þeirra mældust 33,8 og 32,3 desíbel, í sömu röð.
Hafa ber í huga að desíbelskalinn er ekki línulegur, heldur er tvöfalt hærri tala margfalt hærra hljóð. Venjulegt samtal mælist um 60 desíbel, ferð í neðanjarðarlest um 95 desíbel, og högghamar um 130 desíbel.