PALERMO
Höfuðborgin Palermo er hjarta Sikileyjar og einhver mest lifandi staður á Ítalíu. Og eru þeir nú ófáir.
Borgin er þekkt fyrir einstaka blöndu af arkitektúr og menningu sem endurspeglar fjölbreyttar áhrifaöldur á eyjunni. Borgin hefur verið miðstöð verslunar, lista og valda í þúsundir ára, þar sem áhrif Grikkja, Rómverja, Araba og Normanna blandast í einstakri menningararfleifð. Í hjarta Palermo er Normannahöllin, stórkost- leg bygging frá 12. öld sem hýsir glæsilega Cappella Palatina, kapellu prýdda smáflísaverkum. Gömlu borgarhverfin, svo sem Kalsa og Ballarò, bjóða upp á heillandi göngutúra þar sem kirkjur, markaðir og þröngar götur segja sögur af fortíð borgarinnar. Palermo svæðið er fátækt svæði. Þar er mikið atvinnuleysi og lítil fjárfesting. Áhrif mafíunnar voru vond og eru líklega enn. Hún fældi frá fjárfesta og uppbyggingu. Spillingin var mikil og stjórnsýslan veik.
SJÚSKUÐ EN MEÐ SJARMA
Þótt borgin sé sjúskuð, og sum hverfi í mikilli niðurníðslu, þá hefur hún mikinn sjarma. Ekki er þó hægt að mæla með því að ganga frá miðbænum þráðbeint niður að sjó. Leiðin er skítug enda stórskipahöfnin á besta stað – eða öllu heldur versta stað. En út af miðbænum skánar ástandið smátt og smátt og verður alveg hreint ágætt.
Skammt frá miðborginni eru nefnilega fallegar strendur eins og Mondello, þar sem er kristaltært vatn og hvítur sandur. Fjöllin í kring, ekki síst Monte Pellegrino, bjóða upp á stórkostlegt útsýni og gönguleiðir.
CORLEONE
Smábærinn Corleone er 60 kílómetra suðaustur af Palermo. Hann er oft kallaður „Bær hinna hundrað kirkna“ vegna fjölmargra trúarbygginga sinna.
Flestir þekkja Corleone af nafninu einu. Í annarri mynd Guðföðurs Mario Puzo kom Vito níu ára gamall frá Sikiley til Ellis Island í New York. Þá varð til ættarnafnið Corleone og bærinn leikur stórt hlutverk í myndinni.
Corleone á sér ríka sögu sem nær aftur til fornaldar, þar sem bæði Grikkir og Rómverjar settu mark sitt á svæðið. Borgin er umkringd dramatískum klettum og fallegri náttúru. Áhugaverðir staðir eins og Rocca Busambra og Cascata delle Due Rocche – tvöföldu klettafossarnir – draga að ferðamenn sem vilja upplifa friðsæla og óspillta náttúru.
MAFÍUFORINGJAR OG SAFN
Á 20. öld var Corleone þekkt sem miðstöð ítalskrar mafíustarfsemi. Nokkrir af þekktustu mafíuforingjum Ítalíu voru frá bænum. Þeirra á meðal Salvatore Riina, leiðtogi Cosa Nostra – Sikileyjarmafíunnar – frá 1974 til 1993, og Bernardo Provenzano, eftirmaður hans.
Á síðustu áratugum hafa bæjarbúar Corleone unnið hörðum höndum að því að endurskilgreina ímynd bæjarins. Með stofnun safns gegn mafíunni (CIDMA – Mafia and Anti-Mafia Documentation Center) og ýmsum menningarverkefnum hefur bærinn tekið afstöðu gegn glæpastarfsemi og unnið að friði.
Það er virkilega þess virði að sækja Corleone. Bærinn er rólegur og við aðalgötuna, gegnt mafíusafninu, er lítið kaffihús þar sem heldri bæjarbúar sækja.
Þá ber að hafa eitt í huga til að verða ekki sér og sínum til skammar að í norðurhluta Ítalíu drekka menn vatnsglasið á eftir kaffinu. Í suðurhlutanum, og auðvitað þar með talið Sikiley, drekkur maður vatnið fyrir kaffibollann. Skýringin er að mati Suður-Ítala sú að í norðri eru menn að losna við óbragðið. Í suðri er ekkert óbragð, heldur dásamlegt kaffibragð.
Umfjöllunin um Palermo og Corleone er úr nýjasta tölublaði Eftir vinnu.