Hér eru fimm hótel sem ögra hugmyndum okkar um gistingu og bjóða upp á óvenjulega og eftirminnilega upplifun – hvort sem þú leitar að ævintýrum, náttúru eða einfaldlega nýju sjónarhorni á ferðalög.

Icehotel – Jukkasjärvi, Svíþjóð

Á afskekktum slóðum í Lapplandi stendur Icehotel, fyrsta og frægasta íshótel heims. Á hverju ári er það endurbyggt úr ís og snjó úr Torne ánni, og listamenn hvaðanæva að hanna herbergin. Gistirýmið sjálft er úr ís, en gestir fá hlý svefnpokasett og upplifa einstaka „ísrómantík“. Hitinn helst við frostmark, en andrúmsloftið er seiðmagnað og þögnin nærri því heilög

Skylodge Adventure Suites – Sacred Valley, Perú

Þeir sem eru ekki lofthræddir geta eytt nótt í glærum glerhylkjum sem hanga utan á klettavegg hátt í Andesfjöllunum. Til að komast í herbergið þarf annaðhvort að klífa upp fjallshlíð eða fara í sviflínu. Innandyra bíður glæsileg svíta með stórbrotnu útsýni yfir heilagan dal Inka. Einangrunin, hæðin og stjörnubjartur himinninn skapa einstaka blöndu af ævintýri og kyrrð.

Hotel Costa Verde – Manuel Antonio, Kosta Ríka

Við regnskóg og sjó í Kosta Ríku stendur þetta óvenjulega hótel sem býður upp á gistingu í flugvél. Hér hefur gömul Boeing 727-þota verið reist á stólpa og breytt í lúxussvítu með verönd í trjátoppunum. Innréttingarnar eru úr við, lýsingin hlý og úr svefnherberginu má horfa á apa leika sér í trjánum meðan hafgolan streymir um herbergið.

V8 Hotel – Böblingen, Þýskaland Fyrir bílaáhugafólk er V8

Hotel draumastaðurinn. Þetta sérhæfða hótel er tileinkað bílamenningu og bílasögu, með herbergjum sem eru innréttuð í kringum bíla, verkstæði og kappakstursþemu. Gestir geta sofið í rúmum sem eru byggð í kringum ekta klassíska bíla, og hótelið sjálft er hluti af Motorworld, miðstöð fyrir bílaáhugamenn.

Inntel Hotels Amsterdam Zaandam – Holland

Það er erfitt að líta framhjá þessu litríkasta hóteli Hollands. Inntel Hotels Amsterdam Zaandam er eins og risavaxin hrúga af hefðbundnum hollenskum húsum sem hefur verið staflað hvert ofan á annað. Herbergin eru innréttuð með innblæstri frá sögu og menningu svæðisins, og hótelið sjálft er orðin vinsæl sjón bæði meðal ferðamanna og arkitektúrunnenda.

Umfjöllunina er að finna í nýjasta tölublaði Eftir vinnu sem kom út á miðvikudag.

Hér er tölublaðið í heild fyrir áskrifendur Viðskiptablaðsins.