„New York-báturinn og Línan eru vinsælustu bátarnir frá upphafi, eða síðan 1986,“ segir Róbert Árni Jörgensen annar framkvæmdastjóra Hlölla uppi á Höfða.
Sú saga hefur gengið um Hlöllabáta að þeir geti innihaldið yfir 3000 kaloríur, er það rétt?
„Það er algjör þjóðsaga, í venjulegum New York-bát mundi ég áætla að það væru um 700 kaloríur. En ef við erum að tala um þyngri bát, eins og Hlunkinn, þá erum við komin í eitthvað yfir 1000 kaloríur.“ Spurður hvað sé í Hlunknum segir Róbert: „Hann er með nautakjöti, beikoni, osti, kjúkling og síðan sósu og salati. Hann er mjög vinsæll í hádegistörninni hjá okkur.“
Róbert segir að þeir sem kjósi hollari skyndibita geti alveg komið til þeirra upp á Höfða: „Við bjóðum núna upp á heilkorna byggbrauð sem er hollara en hitt. Og ef fólk vill léttari báta þá er hægt að velja magurt kjöt, meira grænmeti og minni sósu. Slíkur bátur er ekki óhollur en það er alveg hægt að gera hann óhollan með feitara kjöti og meiri sósu.“
Róbert segir nýjustu bátana heita Hrausti héraðslæknir, Frændi Lubba og Kraftur Kjötson en þeir voru kynntir til sögunnar nýlega: „Ef þér finnst ritzkex með osti og sultu gott þá áttu eftir að fíla Hrausta Héraðslækni. Á honum er skinka, ostur, salami, camenbert og jarðarberjasulta. Þessi bátur fer algjörlega í allt aðra átt en hinir sem við höfum verið með en ég er sannfærður um að fólk á eftir að vilja prófa hann.“ Spurður hvaðan þessi nöfn koma segir Róbert: “Þetta kemur allt úr Stykkishólmi. Ég er þaðan og rak þar pylsu- og bátavagn. Þetta var það vinsælasta heima í Hólminum.“