Þeir sem hafa heimsótt London hafa eflaust heimsótt Buckingham-höll konungsfjölskyldunnar í leiðinni. Fjölskyldan hefur verið mikið í umræðunni undanfarin misseri eftir að Karl tók við krúnunni af Elísabetu árið 2022 eftir andlát hennar.
Þá hafa þeir ferðamenn einnig rekið augun í frægu verði konungsfjölskyldunnar sem klæðast rauðum og svörtum fötum ásamt stóru svörtu höfuðfati.
Verðir konungsfjölskyldunnar tilheyra herdeild sem nefnist Coldstream-verðirnir á ensku en sú herdeild er elsta samfleytt starfandi herdeild innan breska hersins.
Fréttamiðillinn BBC hefur nú greint frá því hver kostnaðurinn er við húfur varðanna en samkvæmt breska varnarmálaráðuneytinu kostar hver húfa meira en tvö þúsund pund, eða um 360 þúsund krónur.
Kostnaðurinn við að framleiða húfurnar, sem búnar eru til úr skinni svartbjarnar, hefur einnig aukist um 30% á einu ári.
Dýraverndarsinnar hafa þá gagnrýnt framleiðsluferlið og bent á að hægt væri að nota gervifeld. Varnamálaráðuneytið segist vera opið fyrir þeim möguleika ef efnið skyldi standast allar nauðsynlegar kröfur.