Samdráttur í bílasölu á síðasta ári nam um 42% miðað við sama tíma árið á undan. Kostnaður vegna rafbíla tók miklum breytingum í byrjun árs 2024 þegar ívilnanir vegna greiðslu á virðisaukaskatti féllu niður. Þá settu stjórnvöld á 6 krónu gjald fyrir hvern ekinn kílómetra fyrir hreina rafbíla og 2 krónur fyrir tengiltvinnbíla. Við spurðum forstjóra bílaumboðanna um stöðuna á markaðnum.

Hrun í rafbílasölu hafði mikil áhrif á markaðinn

Efnahagsumhverfið var þungt í fyrra, verðbólga og háir vextir. Eru fleiri skýringar á samdrætti í bílasölu árið 2024?

,,Mikill samdráttur í einkaneyslu ríkti heilt yfir á síðasta ári vegna óstöðugleika í efnahags- og stjórnmálum. Önnur stór ástæða fyrir samdrætti síðasta árs í bílasölu er vegna hruns í rafbílasölu miðað við 2023 þar sem hlutdeild keyptra rafbíla einstaklinga var 74,1% en fór niður í 46% í fyrra. Árið byrjaði mjög þungt eftir að stjórnvöld breyttu fyrirkomulagi á ívilnun fyrir rafbíla. Ívilnunin kom með breyttu formi, þar sem 900.000 kr. styrkur fæst þegar keyptur er nýr rafbíll. Þessi útfærsla er töluvert flóknari en ívilnun fyrri ára með niðurfellingu á hluta af virðisaukaskatti, vegna þess að núna þarf viðskiptavinur að greiða fullt verð fyrir bílinn og fær svo styrkinn greiddan eftir kaup. Ofan á þessa breytingu var ákveðið að innleiða kílómetragjald á rafmagns- og tengiltvinnbíla sem hefur gert það minna hagkvæmt fyrir neytendur að keyra um á rafbílum,“ segir Erna Gísladóttir, forstjóri BL.

Hvernig leggst nýja árið í þig og hvenær telur þú að bílasala taki við sér?

,,Við finnum fyrir jákvæðari blikum á lofti með minni óvissu í stjórnmálum og vonir eru um lækkandi vexti. Okkar spá er að bílasala taki við sér í vor og verði stigvaxandi það sem líður á þetta ár. BL hefur upp á að bjóða fjölbreytt úrval af bílum, hvort sem það eru rafbílar, hybrid eða bensín/dísil. Einnig verða kynntir nýir og spennandi bílar, eins og nýr BMW X3 sem er frumsýndur í janúar, sem og Renault 5 sem var valinn bíll ársins 2025. Svo eru spennandi nýjungar að koma í vöruúrval hjá t.d. Dacia, Hyundai og Hongqi seinna á árinu,“ segir Erna.

Hvað skýrir samdrátt í sölu rafbíla og hvernig heldur þú að salan muni þróast í ár?

,,Eins og ég nefndi þá hafa ítök stjórnvalda með styrkjum og auknum sköttum gríðarleg áhrif á rafbílakaup almennings og fyrirtækja. Á þessu ári herðast reglugerðir Evrópusambandsins hvað varðar mengun nýrra bíla í svokölluðum CAFE skilmálum („Corporate average fuel economy“) og þurfa því bílaframleiðendur í Evrópu að leggja áherslu á framleiðslu umhverfisvænna bíla. Við höldum áfram að fylgjast vel með þessum þróunum og lítum til samstarfs við framleiðendur og aðila í greininni til að aðlagast breyttu umhverfi,“ segir Erna.

Til að lesa meira

Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.

Verð frá 2.749 kr. á mánuði