Christian Stein hefur starfað í bílaiðnaðinum frá árinu 1991, fyrst hjá Peugeot í Frakklandi, síðan Seat á Spáni og nú hjá Renault. Hann er aðstoðarframkvæmdastjóri samskipta hjá Renault og heyrir undir forstjóra.
Renault 5 er sögulega einn best heppnaði bíll framleiðandans. Hann var framleiddur frá árinu 1972 til ársins 1986 í um 9 milljónum eintaka og var mest seldi bíll Frakklands öll árin.
Stjórnendur Renault telja að með nýjum R5 rafbíl sé komin ný vonarstjarna og segja að við hönnunina hafi verið horft til allrar Evrópu, ekki bara Frakklands. Renault 5 var markaðssettur sem „Le car“ í Bandaríkjunum. Tíminn mun leiða í ljós hvort þarna sé kominn sjálfur „bíllinn“. Viðskiptablaðið náði tali af Stein í Genf og spurði hann nokkurra spurninga.
Haldið þið hjá Renault að rafbílar séu framtíðin eða mun einhver annar orkugjafi veita rafmagninu keppni eins til dæmis vetni?
„Já, við höldum það,“ segir Stein. „Lestin er lögð á stað. Þetta er sú leið sem við höfum valið að fara í því að minnka útblástur. Við sjáum líka gríðarlega breytingu hjá almenningi í þá átt að vera umhugað um að draga úr mengun.
Ef þú skoðar árið 2023 þá er það í fyrsta sinn í sögu bílaiðnaðarins, sem fleiri rafbílar voru frumsýndir en bílar með sprengihreyfli. Það þýðir að framleiðendur eru nú að setja allar, eða stærstan hluta, fjárfestingar sinnar í rafbíla.“
Stein segir að vegurinn fyrir rafbíla verði hvorki beinn né breiður, það verði hæðir og lægðir í sölunni. Þrátt fyrir það segir hann enga ástæðu til að ætla annað en að uppistaðan af sölu nýrra bíla í framtíðinni verði rafbílar.
Framleiðslukostnaður mun lækka
Hvenær verður framleiðslukostnaður rafbíla svipaður og bíla með sprengihreyfil?
„Framleiðslukostnaður er eitt og heildarkostnaðurinn fyrir bílakaupandann er annað. Þessa stundina er mesti kostnaðurinn við rafhlöðuna en sá kostnaður erum 30-40% af heildarframleiðslukostnaðinum. Við ætlum okkur að lækka framleiðslukostnaðinn um 40% í næstu kynslóð af bílum til þess að raunverulega lækka verðið.“
Sú mikla lækkun framleiðslukostnaðarins, sem Stein talar um, verður að öllu óbreyttu ekki fyrr en eftir um átta ár. Hann bendir á að ef horft sé á heildarkostnaðinn við rekstur rafbíls og bensín- og dísilbíls sjáist að kostnaðurinn sé að nálgast það að verða svipaður. Rafbílarnir séu enn aðeins dýrari en heildarkostnaðurinn ráðist af því hversu mikið bíllinn er ekinn.
Hversu mikið skiptir stuðningur stjórnvalda?
„Hann er grundvallaratriði. Við þurfum stuðning. Ég veit ekki hvort þú fylgist með frönskum stjórnmálum en frönsk stjórnvöld hafa lagt mikla fjármuni á borðið til þess að efnaminna fólk hafi efni á því að kaupa rafbíla. Þetta hefur gengið gríðarlega vel og á nokkrum vikum eru komnar 50 þúsund pantanir frá fólki, sem hefði líklega ekki keypt rafbíla.
Þetta sýnir að við þurfum hvata til að kaupa rafbíla. Ítalska ríkisstjórnin hefur tilkynnt að hún muni hefja stuðning við rafbílakaupendur strax núna í mars.“
„Höfum forskot"
Skilar rafbílaframleiðsla Renault hagnaði?
„Að sjálfsögðu. En það er auðvitað áskorun því þetta eru dýrir bílar í framleiðslu. Það er langtímamarkmið að gera bíla hagkvæmari í framleiðslu og ódýrari.“
Þegar ég var ungur, og þú starfaðir hjá Peugeot, fékk ég tvo ráð. Annars vegar að drekka frönsk vín en hins vegar að kaupa aldrei franska bíla. Þetta var í lok síðustu aldar. Hvað breyttist?
„Jú jú, þetta grín hef ég oft heyrt. Stundum hefur samlíkingin líka verið þýskir bílar og ítalskar konur,“ segir Stein og brosir. „Þó ég hafi nú aldrei tekið mark á þessu þá var þetta sagt í fúlustu alvöru.
Franskir bílasmiðir hafa virkilega lært sína lexíu. Í dag þurfum við ekki að öfunda neinn bílaframleiðanda þegar kemur að gæðum. Við komum vel út úr könnunum á gæðum bílanna og þjónustu.
Hvað rafbíla varðar þá eru 12 ár síðan við hófum framleiðslu þeirra svo við skiljum nákvæmlega hvernig þeir virka, sérstaklega rafhlaðan. Við höfum forskot hvað það varðar.“
Viðtalið birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið það heild hér.