Lavaforming eftir Arnhildi Pálmadóttur beislar hraun framtíðarinnar
Í fyrsta sinn í sögunni á Ísland fulltrúa á Feneyjartvíæringnum í arkitektúr – einum mikilvægusta vettvangi samtímaarkitektúrs á heimsvísu. Fulltrúi Íslands í ár er sýningin Lavaforming eftir Arnhildi Pálmadóttur, arkitekt hjá s.ap arkitektum, en verkefnið hefur vakið verðskuldaða athygli á meðal alþjóðlegra fjölmiðla og var meðal annars valið á topp 5 lista Financial Times yfir skálana sem gestir mega ekki láta fram hjá sér fara.
Hraun sem byggingarefni framtíðarinnar
Sýningin Lavaforming leiðir áhorfendur inn í heim framtíðarinnar – til ársins 2150 – þar sem menn hafa þróað aðferðir til að beisla rennandi hraun og nýta sem sjálfbært byggingarefni. Í skálanum er meðal annars sýnd kvikmynd sem skyggnist inn í líf sex einstaklinga í þessu nýja samfélagi þar sem innviðir borga, húsnæði og mannvirki eru mótuð úr hrauni. Þar eru sögur sagðar þar sem hin byltingarkennda tækni tengd hraunbyggingum gegnir lykilhlutverki í daglegu lífi fólks.
„Í okkar sögu höfum við beislað hraunrennslið líkt og við gerðum með gufuaflið á 20. öld. Við vörðum söguna með atburðum sem höfðu áhrif á þróun og tækni en markmiðið er að sýna að arkitektúr getur verið krafturinn til að endurhugsa og móta nýja framtíð,“ segir Arnhildur. Hún bendir á að hraunflæði geti falið í sér nægilegt byggingarefni til að reisa heila borg á fáeinum vikum – án skaðlegrar námuvinnslu eða óendurnýtanlegrar orkunotkunar.
Sterkt teymi að baki framtíðarsýninni
Með Arnhildi á verkefninu starfar öflugt teymi: Arnar Skarphéðinsson, arkitekt og meðhöfundur; Björg Skarphéðinsdóttir, hönnuður; Sukanya Mukherjee, arkitekt; Andri Snær Magnason, rithöfundur; og Jack Armitage, tónlistarmaður og hönnuður. Saman hafa þau skapað sýningu sem sameinar hugmyndafræði, nýsköpun, umhverfisvitund og frásagnarlist.
Verkefni sem vekur athygli
Lavaforming hefur hlotið mikla umfjöllun, bæði innanlands og erlendis. Auk viðurkenningar á Feneyjartvíæringnum sjálfum hlaut Arnhildur Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs árið 2024 – viðurkenningu sem undirstrikar mikilvægi og áhrifamátt hugmynda hennar.
Tvíæringurinn stendur yfir frá 10. maí til 23. nóvember 2025 og eru alls 66 þjóðir með sýningar. Umsjón með þátttöku Íslands hefur Miðstöð hönnunar og arkitektúrs.
Á Instagram-síðu Lavaforming geta áhugasamir fylgst með verkefninu, skyggnst bakvið tjöldin og kynnst teyminu á bak við eina metnaðarfyllstu og framsæknustu sýningu sem Ísland hefur staðið að á sviði samtímahönnunar og arkitektúrs.