Maria Jimenez Pacifico, eigandi Mijita, flutti til Íslands frá Kólumbíu þegar hún var aðeins 13 ára gömul. Hún var meðal þeirra sem mættu til að elda fyrir gesti Götubitahátíðarinnar í Hljómskálagarðinum síðustu helgi og segir að móttakan sem hún og samstarfsmenn hennar fengu hafi verið blessun.

„Þetta var bara eins og Hungurleikarnir. Við vorum að segja að þetta var pínu eins og heimsendir, það var svo mikið að fólki. En þetta sýnir líka hvað það er mikil þörf fyrir fjölbreytileika í matarmenningu á Íslandi og það er það sem við viljum gera með Mijita.“

Maria bauð upp á ýmsa kólumbíska rétti eins og Empanadas og Arepas, sem er frumbyggjamatur sem vann titilinn í ár „Besti grænmetisbitinn“. Hún segir að tvö til þrjú hundruð kíló af mat hafi selst upp á örfáum klukkutímum og var hún strax aftur farin að elda meiri mat langt fram eftir kvöldi fyrir næsta dag.

Mijita bauð einnig upp á Cerdito, sem vakti mikla lukku en það er 14 klukkutíma hægeldað svínakjöt sem Maria eldar samkvæmt uppskrift ömmu sinnar.

Mijita
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

„Ég er svo fegin að sjá hversu vel Íslendingar eru að taka á móti þessum nýja mat og fagna fjölbreytileikanum.“

Maria tók þátt í Götubitahátíðinni í fyrra en segir að matarvagn þeirra sé glænýr. Hún hefur einnig verið að færa út kvíarnar en matarlína Mijita verður fáanleg í matvöruverslunum í haust og þar að auki mætti hún bæði á írska daga og á kótelettuna í ár.

„Við vorum að afgreiða fólk sem kom alla leið frá Selfossi, sem hafði smakkað matinn á hátíðinni þar, bara til að borða aftur. Sem er fyndið því á Selfossi lentum við í því sama með að afgreiða krakka sem höfðu smakkað matinn á Akranesi og komu aftur til að borða meira,“ segir María.

Hún segir tilganginn með Mijita vera að byggja menningarbrú á milli Íslands og Kólumbíu en fyrir Mariu er nafnið á staðnum henni mjög kært.

Mijita
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

„Mijita þýðir á spænsku „litla dóttir mín“ og voru það síðustu orðin sem pabbi sagði við mig áður en að hann dó. En með þessu vil ég bara bjóða Íslendingum upp á hollan, skemmtilegan og nýjan mat.“

Hún segir þetta hafa verið mjög mikil vinna en á sama tíma mjög gefandi. „Maður vill líka gleðja fólk og láta það halda að það hafi farið alla leið til Kólumbíu í gegnum bragðlaukana. Það leynast nefnilega minningar í matnum og þegar ég geri matinn þá er það í gegnum minningar mínar sem ég hef af ömmu þegar hún eldaði fyrir mig þegar ég var fimm ára stelpa í Kólumbíu.“

Maria segist leggja mikið upp úr ferskleika og lágt kolefnisspor. Allur maturinn er gerður úr íslensku hráefni og þar að auki eru pakkningarnar allar vistvænar.

„Ég lenti í mjög grófu einelti í Kólumbíu og ætlaði 8 ára gömul að fremja sjálfsmorð. En ég flyt ég til Íslands og Ísland bara bjargaði lífi mínu og ég hugsaði að einn daginn myndi ég vilja gefa eitthvað til baka til Íslands og þarna kemur Mijita inn í myndina.“