Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, heimsótti höfuðstöðvar Microsoft í Seattle í síðustu viku. Þar kynnti hann sér áherslu Microsoft á að gera tækni aðgengilega á sem flestum tungumálum. Á meðan á heimsókn forsetans stóð var íslensku formlega bætt við sem nýjasta tungumáli gervigreindarþýðingarvélarinnar Microsoft Translator.
Microsoft Translator er þýðingarvél sem knúin er af gervigreind og hefur teymi innan Microsoft unnið að þróun tækninnar fyrir íslensku í heilt ár.
Íslenska er eitt af rúmlega 60 tungumálum sem þýðingarvélin býður upp á. Microsoft Translator býður upp á tungumálaþýðingar í rauntíma og með tímanum mun hún aðlaga sig betur að íslenskum orðum og hugtökum. Síðastliðinn föstudag tilkynnti Microsoft um íslensku sem valmöguleika í forritum sínum. Með þessum eiginleika er nú hægt að þýða íslenskan texta yfir á um 60 mismunandi tungumál.
Að sögn Marianne Dahl Steensen, forstjóra Microsoft í Danmörku, er innkoma íslenskunnar mikilvægur áfangi fyrir Íslendinga og íslenska tungu þar sem tungumálið hefur oftar en ekki gleymst sem tæknimál sökum smæðar sinnar.
Heimir Fannar Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Microsoft á Íslandi tekur í sama streng og segist afar ánægður með þá ákvörðun Microsoft að leggja slíka vinnu og tíma í að styðja íslenska tungu á þennan hátt.