Íslenska sjónvarpsþáttaröðin Reykjavík Fusion verður heimsfrumsýnd á Cannes Series-hátíð sem fer fram í lok apríl en þáttaröðin er sú fyrsta frá Íslandi sem valin er til frumsýningar á hátíðinni.
Reykjavik Fusion er framleidd af íslenska fyrirtækinu ACT4 og verður sýnd á Sjónvarpi Símans Premium í haust.
Ólafur Darri Ólafsson og Hera Hilmarsdóttir fara með aðalhlutverk í þáttunum en þeir fjalla um matreiðslumeistara sem kemur úr fangelsi og neyðist til að slá lán hjá undirheimakóngi til að stofna veitingastað í Reykjavík.
Cannes Series-hátíðin hefur undanfarin ár fest sig í sessi sem ein sú virtasta á sviði sjónvarpsefnis og er gjarnan kölluð svar sjónvarpsbransans við kvikmyndahátíðinni í Cannes.
Átta þáttaraðir frá ýmsum löndum eru valdar til sýningar í Cannes og keppa þær einnig í aðalkeppni hátíðarinnar um viðurkenningar í nokkrum flokkum.
„Að vera valin til frumsýningar á Cannes Series er gífurlega mikil viðurkenning fyrir leikara og tökulið. Við lögðum upp með að gera gæðaþáttaröð og það tókst þeim svo sannarlega að gera,“ segir Jónas Margeir Ingólfsson, framkvæmdastjóri og yfirframleiðandi ACT4.
Meðframleiðendur eru franska og þýska sjónvarpsstöðin Arte, Wild Sheep Content, framleiðslufyrirtæki Erik Barmack og íslenska framleiðslufyrirtækið SKOT Productions.