Inga Tinna segir að hugbúnaðurinn sem liggur að baki Sinna.is sé þróaður af teymi hennar og sé einstakur. „Við höfum þróað sextán mismunandi hugbúnaðarlausnir alveg frá grunni. Það eru mjög margir sem halda að við höfum bara gert borðabókunarkerfi, sem er út af fyrir sig algjört afrek af því að það þarf margra ára þróun til þess að höfða til allra þarfa veitingageirans.“
Þegar heimsfaraldurinn skall á var ljóst að borðabókunarkerfi dygðu ekki lengur sem eina afurðin. „Þá hófumst við handa og þróuðum öll þessi aukakerfi, eins og matarpöntunarkerfi, kassakerfi, stimpilklukku, sjálfvirkar vefsíður og rafræn gjafabréf. Allar vörurnar eru einstakar en það er hægt að nota þær allar saman.“
Það sem gerir kerfið einstakt er hversu samfellt það er í notkun. „Það sem sker okkur frá öllum öðrum, ekki bara hérlendis heldur erlendis líka, er að allar okkar vörur eru aðgengilegar í gegnum einn bakenda og það er algjörlega byltingarkennt í þessum heimi. Öll kerfi tala saman og allt uppfærist samtímis. Þetta straumlínulagar algjörlega reksturinn og er einsdæmi í þessum bransa, að minnsta kosti svo ég viti til.“

Viðtalið við Ingu Tinnu er að finna í nýjasta tölublaði Eftir vinnu sem kom út á miðvikudag.