Viðburðurinn fór fram í vínhúsi Pierre Paillard í þorpinu Bouzy, einu af fáum grand cru þorpum Champagne-héraðsins.
Þráinn Freyr Vigfússon, eigandi og stofnandi ÓX, yfirkokkurinn Aron Leevi Þrastarson og vínþjónninn Manuel Schembri voru fulltrúar ÓX á viðburðinum. Þeir buðu upp á níu rétta matseðil þar sem íslenskt hráefni var í aðalhlutverki, sérflutt til Champagne fyrir tilefnið. Manuel paraði hvern rétt við kampavín frá Pierre Paillard og vín frá Château de Plaisance. ÓX hlaut sína fyrstu Michelin-stjörnu árið 2022 og er þekktur fyrir persónulega þar sem allt gerist í nálægð við gestinn.
Dagskráin hófst með fordrykk og smáréttum úti á Pinot Noir-ekrum Paillard-bræðra í Bouzy, þar sem gestir nutu stórbrotins umhverfis og fegurðar víngarðsins. Að því loknu var haldið inn í vínhúsið sjálft þar sem veislan fór fram. Allur matur var unninn úr íslensku hráefni – lambakjöti, sjávarfangi og íslenskum jurtum. Að sögn viðstaddra var um að ræða glæsilega kynningu á íslenskri matargerð í alþjóðlegu samhengi, í hjarta Champagne. Sætaframboð var takmarkað, en gestir komu víða að – meðal annars frá Íslandi, Spáni, Lúxemborg og Frakklandi. Þar blandaðist saman fagfólk úr vín- og matargeiranum og áhugafólk með djúpa ástríðu fyrir matar- og vínupplifun.

Sem fyrr segir stóð Baunir & ber að viðburðinum, en fyrirtækið er íslensk heildsala sem sérhæfir sig í kaffivélum og fylgihlutum, keramiki og léttvínum – meðal annars frá Pierre Paillard í Bouzy og Château de Plaisance í Anjou í Loire.
Pierre Paillard er fjölskyldurekið vínhús sem hefur framleitt kampavín í átta kynslóðir. Bræðurnir Antoine og Quentin Paillard tóku við rekstrinum af föður sínum árið 2016 og stýra nú öllu framleiðsluferlinu með arfleifð fjölskyldunnar í fyrirrúmi. Allar ekrur vínhússins eru staðsettar á hinu virta Montagne de Reims-svæði og eru skráðar sem grand cru – hæsta gæðaflokkun svæðisins.


Pierre Paillard er þekkt fyrir fínleg og jarðefnarík kampavín, þar sem jafnvægi og tærleiki er í fyrirrúmi. Bræðurnir framleiða aðeins kampavín úr þrúgum af eigin ekrum og er virðing fyrir ekrunni, vínviðnum og sjálfbær framleiðsla hjartað í allri starfsemi bræðranna. Vanessa Cherruau, eigandi og víngerðarkona hjá Château de Plaisance, mætti á viðburðinn frá Loire-héraði í Frakklandi. Vínhúsið er staðsett í Anjou og framleiðir náttúruleg vín með lífrænum og biodýnamískum aðferðum. Vanessa tók við rekstri vínhússins árið 2017 og hefur vakið mikla athygli fyrir hrein og lífleg vín sem endurspegla einstakan karekter héraðsins. Vínin frá Château de Plaisance eru meðal annars gerð úr Chenin Blanc, sem þekkt eru fyrir fína sýru og mikla dýpt.

