Cornel G. Popa, eigandi Little Italy, frumsýndi nýja ítalska matarvagninn sinn á Götubitahátíðinni sem fór fram í Hljómskálagarðinum í Reykjavík um síðustu helgi.
Þetta var í annað sinn sem Cornel tók þátt í hátíðinni en hann var með matarvagninn La Cucina í fyrra, sem bauð einnig upp á ítalskar samlokur.
„Við vorum með La Cucina í fyrra en í ár ákváðum við að prufa eitthvað nýtt og bjóða upp á ítalskan mat með New York-brag. Það eru vissulega margir sem vilja bara hefðina en við vildum fara aðra leið í ár.“
Cornel er frá Apulia á suðurhluta Ítalíu og vonast til að geta boðið upp á fleiri matvæli frá því héraði. Í ár bauð hann meðal annars upp á kjötbollusamlokur með rucola og parmesan-osti og samlokur með mortadella, stracciatella-osti og pesto.
„Svo erum við með sérstaka samloku sem við gerðum í ár en hún er með hrossakjöti sem er elduð í viskísósu og borin fram með gráðosti, rucola, lauk og rabbabarasultu.“
Aðspurður um framtíðina segir Cornel að áform liggi fyrir um að opna veitingastað í október á þessu ári en getur ekki enn staðfest dagsetningu. Mikill vöxtur hefur engu að síður verið í ítölskum samlokum á Íslandi undanfarin misseri.