James Bond, njósnari hennar hátignar, hefur ekið mörgum mögnuðum bílum í gegnum tíðina á hvíta tjaldinu. Margir þessir eðalvagnar hafa verið búnir ýmsum brellubúnaði sem er ómissandi hluti af atvinnutækjum njósnarans. Bílarnir og tækjabúnaður þeirra hefur oftar en ekki bjargað Bond í fjölmörgum ævintýrum njósnarans.

Af mörgum geggjuðum bílum úr myndunum um 007 er Aston Martin DB5 að öðrum ólöstuðum hinn eini sanni Bond bíll. Hann kemur fram í alls sex myndum um njósnara hennar hátignar. Þessi breski gullmoli var kynntur til sögunnar í Goldfinger 1964. Q, hinn magnaði tækjagúru bresku leyniþjónustunnar, var búinn að gera ýmislegt spennandi við bílinn. Meðal búnaðar í DB5 eru dekkjatætarar í felgumiðjunum, kampavínskælir í stokknum milli framsæta, vélbyssur, reyksprengjur og fleira, ásamt hinu ógleymanlega gormsæti sem gerir ökumanni kleift að losa sig í snarhasti við leiðinlega farþega í framsæti.

Á eftir Goldfinger kom DB5 fram í Thunderball 1965 og í Goldeneye 1995, en þá dustaði Pierce Brosnan blessunarlega rykið af honum eftir 20 ár í bílskúrnum. Í Goldeneye er Bond á DB5 í svakalegu bílaatriði í hæðunum yfir Mónakó ásamt hinni rússnesku Xeniu Onatopp á rauðum Ferrari F335 GTS. Bond er áfram á DB5 í næstu mynd, Tomorrow Never Dies, 1997.

Aston Martin DB5 er að öðrum ólöstuðum hinn eini sannig Bond bíll. Hann er einn frægast bíll kvikmyndasögunnar.

Umfjöllunina um Bond og bílana hans er að finna í nýjasta tölublaði Eftir vinnu. Hér er greinin í heild.