Jökull Júlíusson, söngvari og lagahöfundur hljómsveitarinnar KALEO, hefur á síðustu árum skipað sér sess sem einn helsti fulltrúi íslenskrar tónlistar á alþjóðavísu.
Jökull er í forsíðuviðtali Eftir vinnu sem kom út í dag, þar sem hann ræðir meðal annars um nýtt samstarf við Maison Wessman.
Samhliða tónlistinni hefur Jökull tekið þátt í verkefnum sem fela í sér skapandi tjáningu á öðrum sviðum. Eitt slíkt er samstarf hans við athafnamanninn Robert Wessman við framleiðslu vína í Bergerac í Frakklandi. „Ég er mikill vínáhugamaður og elska góð vín, þannig að þetta verkefni var algjör draumur fyrir mig,“ segir Jökull. Fyrsti afrakstur samstarfsins eru tvær tegundir af hvítvíni úr Chardonnay þrúgum og tvær tegundir af rauðvíni úr Merlot og Cabernet Sauvignon-þrúgum. Jökull og Róbert blönduðu vínin undir leiðsögn Julians Viaud, frá Michel Rolland Associates.
Fyrstu vínin eru framleidd í takmörkuðu magni og hefst sala á þeim á Íslandi og Frakklandi í þessari viku. „Þetta eru vín í hæsta gæðaflokki, og ég er mjög stoltur af útkomunni.“ Hann bætir við að vinnuferlið hafi verið einstök upplifun. „Það var ótrúlega fallegt að dvelja í Bergerac og taka þátt í þessu verkefni. Ég reyni alltaf að gera allt sem ég tek mér fyrir hendur vel, og þetta er engin undantekning.“
Viðtalið við Jökul er í nýjasta tölublaði Eftir vinnu sem kom út í dag.
Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta lesið viðtalið í heild hér.