Glæsilegt hátíðarrit var gefið út í tilefni af 100 ára afmæli Viðskiptaráðs Íslands þann 17. september síðastliðinn. Í tilefni af aldarafmæli ráðsins færir Viðskiptaráð landsmönnum öllum jólakveðju með opnum aðgangi að hátíðarriti ráðsins á vefsíðu ráðsins .

Hátíðarritið reifar 100 ára sögu ráðsins og lítur jafnframt til framtíðar. Sagan er rituð af sagnfræðingunum Magnúsi Sveini Helgasyni og Stefáni Pálssyni.

„Tilgangur Viðskiptaráðs, eða Verzlunarráðs eins og það hét fram til ársins 2005, hefur allt frá stofnun þess ætíð verið sá sami; að stuðla að umbótum í íslensku viðskiptalífi,“ segir Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri sem ritstýrði verkinu ásamt Védísi Hervöru Árnadóttur, samskiptastjóra ráðsins.

„Saga ráðsins endurspeglar í raun þróun íslensks þjóðfélags frá aldamótum 1900 og var í tilefni afmælisins ráðist í útgáfu hátíðarrits sem og heimildarmyndar sem fangar þessa áhugaverðu sögu. Við erum stolt af þessu verki og viljum að sem flestir njóti þess. Það er því einnig gleðilegt að heimildarmyndin verði sýnd á RÚV, sjónvarpi allra landsmanna, þann 23. janúar 2018.“

Bókina prýðir fjöldi mynda og fróðleikur ásamt skrifum frá forseta Íslands og forsætisráðherra. Þar eru einnig viðtöl við forsvarsmenn þeirra aðildarfélaga er fylgt hafa ráðinu í yfir 90 ár. Að lokum er gægst inn í framtíðina með fjölbreyttum gestaskrifum.