Flugfélagið PLAY tilkynnti í gær að flogið verður til þorpsins Rovaniemi í norðurhluta Finnlands þann 7. desember og síðan flogið heim daginn eftir. Rúmlega 65 þúsund manns búa í Rovaniemi en bærinn er þekktur fyrir að vera heimkynni jólasveinsins.

Rúmlega 600 þúsund manns leggja leið sína þangað á hverju ári og má meðal annars finna um 12 þúsund hreindýr á svæðinu.

Rovianemi er einnig höfuðstaður Lapplands og samkvæmt ferðasíðunni Visit Rovaniemi samsvarar ferðaþjónusta til bæjarins um þriðjungi af öllum ferðaþjónustutekjum Lapplands. Ferðaþjónusta þar skilar inn um 400 milljónum evra og er búist við að sú tala muni ná 600 milljónum evra næstu fimm árin.

Bærinn hefur ekki alltaf verið þekktur fyrir jólasveininn en á nítjándu öld kom upp mikið gullæði í Lapplandi sem gerði Rovaniemi að miðpunkti fyrir viðskiptalíf á svæðinu.

Við lok seinni heimsstyrjaldarinnar tóku Þjóðverjar þá ákvörðun að eyðileggja nær öll hús í Rovaniemi þegar herinn var að hörfa frá Finnlandi. Þar sem rúmlega 90% af byggingum í bænum voru eyðilagðar þurfti að endurbyggja Rovaniemi og var þá mikil áhersla lögð á hreindýrabrag við hönnun bæjarins.