Samkvæmt fréttamiðlinum Wall Street Journal eru bandarísk fyrirtæki hægt og rólega að hætta við að bjóða starfsfólki sínu upp á jólaveislur. Mörg þeirra hafa orðið fyrir barðinu á verðbólgu og vaxtahækkunum og leita nú annarra leiða til að skemmta sér yfir hátíðirnar.
Áður fyrr tíðkaðist það að fyrirtæki buðu starfsfólki sínu í veislur með nautasteik og plötusnúðum og buðu sum þeirra upp á fræga grínista sem flugu til að taka þátt í veislunum.
Sean Slater, fyrirtækjaeigandi í Bandaríkjunum, bauð öllu starfsfólki sínu og mökum þeirra í flug til Norður-Karólínu til að taka þátt í kokteilboði til að fagna velgengni fyrirtækisins rétt fyrir jól. Í segir segist hann hins vegar ætla aðeins að bjóða starfsfólki sínu upp á hamborgara og bjór í brugghúsi.
Samkvæmt könnun sem gerð var af LinkedIn sögðust 55% af þeim sex þúsund sem spurðir voru að þau ætluðu ekki að mæta í jólaveislu á vegum fyrirtækisins í ár.
Núverandi ástand í heiminum setur líka ákveðið strik í reikninginn en Steve Rabinowitz, fyrrverandi aðstoðarmaður Bills Clinton forseta sem rekur nú samskiptafyrirtæki í Washington, sendi tölvupóst til vina og samstarfsmanna fyrr í þessum mánuði þar sem hinni árlegu Hanukkah-veislu var aflýst.
„Eftir 28 samfelld ár af Latka-kökum og vodka þá finnst mér ekki í lagi að halda veislu í ár miðað við það sem gerðist 7. október og verandi í miðju stríði,“ segir Rabinowitz sem ætlar þó að mæta í aðrar veislur.